Nýkominn og pakkandi

Helgin í London var alveg prýðileg. Við tókum út suðurbakka Thames, Design Museum og Tate Modern, auk þess að visitera nokkra af helstu póstunum á norðurbakkanum.

Chelsea - Aston Villa lauk með jafntefli, þar sem við feðgar og frændur vorum ósammála yfirlýsingum Mourinho um að þetta hefði verið besti leikur Chelsea á tímabilinu, okkur þótti þeir hálfdaufir þótt vissulega hafi þeir átt fleiri færi. Fulltrúi okkar í stuðningsmannaklúbbi Chelsea lýsti yfir svolitlum vonbrigðum með stuðningstilþrif heimaáhorfenda og við pabbi vorum ekki frá því að það hefði verið ívið meiri stemmning á White Hart Lane hérna um árið. En það er alltaf stemmning að fara á leik í ensku knattspyrnunni. Næst verður það Old Trafford.

Veðrið var alveg prýðilegt þar til á sunnudagseftirmiðdegi þegar skýfall skolaði okkur inn á næsta kaffihús og þaðan á hlaupum niður í næsta Tube inngang. Það stytti þó þokkalega upp seinna um daginn.

Stefni á að skella inn nokkrum myndum við tækifæri.

Heimkominn og bráðum kominn heim

Í gær hélt ég svo áfram að spara með því að eyða og strikaði út nokkur atriði til viðbótar af innkaupalistanum. Það hefur sannast sagna gerst lygilega oft undanfarið að ég hafi verið búinn að finna eitthvað sem ég ætlaði að kaupa við betra tækifæri og þegar ég svo geng í kaupin kemur í ljós að það er akkúrat búið að lækka verðið á því sem ég hef áhuga á. Ég man strax eftir þremur óskyldum tilvikum undanfarna viku.

Sem gerir manni auðvitað kleyft að spara enn meira...

Nú er það svo bara að reyna að pakka sem mestu þannig að það sé frá. Það verður vissulega fróðlegt að sjá hversu miklu ég hef bætt við mig af dóti, þar sem ég á enn kassana sem ég flutti dótið út í fyrir tveimur árum.

Það er hins vegar svolítil kúnst að pakka niður miðað við mánaðarhliðrun, þ.e. ég á von á að það líði allt að mánuður frá því að ég flýg heim og þar til búslóðin skili sér (enda mun hún bíða sófans góða). Þannig að ég þarf að reyna að sjá fyrir mér hverju ég muni þurfa á að halda á þeim mánuði og pakka því fyrir flugið.

Erfðaefni frá móður minni gerir að verkum að ég á erfitt með að henda hlutum sem ég hef minnsta grun um að geti einhverntíman reynst nýtilegir, en ég reyni að beita sjálfan mig hörku og henda öllu því sem ég er ekki beinlínis viss um að ég eigi eftir að nota aftur. (Eða fer sama og ekkert fyrir hvort eð er...)

Ég sé því miður ekki fram á að ná að kveðja alla með sómasamlegum hætti, en mun samt halda áfram að reyna eftir því sem færi gefst. Kaupmannahafnískir lesendur eru því fyrirfram beðnir afsökunar á því ef ég missi af því að kveðja þá almennilega, en við hittumst þá bara betur næst.

En nú eru það kassarnir sem kalla...


< Fyrri færsla:
Spurning um nettengjara
Næsta færsla: >
Myndum bætt við
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry