Barasta kominn heim

Skilaði mér heim í gær.

Það var eiginlega ekki fyrr en vélin var lent og flugfreyjan búin að fara í gegnum "Góðir farþegar, velkomnir heim" og "Welcome to Iceland", og ég var að dást að danska framburðinum í "Kære passagerere" að það rann upp fyrir mér að ég væri ekki bara í fríi á Íslandi heldur fluttur.

Ekki veit ég hvort það var 29 kílóa gámurinn sem ég dröslaði á eftir mér eða þriggja daga skeggbroddarnir sem gerðu mig svo krimmalegan, en þegar ég kom að tollhliðinu í Leifsstöð var mér snarlega bent á að koma til hliðar og renna töskunni gegnum skanna. Þar kom Mini-inn í ljós og vakti nokkra furðu.

Þetta er í fyrsta sinn á ævinni sem ég er "gómaður" í tollinum (að frátöldu einu skipti þegar tollvörðurinn kíkti í fríhafnarpokann minn til að telja bjórana).

Ég var því dreginn á bak við og gúmmíhanskarnir dregnir fram. Þeim var þó ekki beitt á neitt annað en ferðatöskuna og innihald hennar. Svo var mér vísað inn á kontór yfirmannsins sem þótti miður að ég skildi ekki vera með neina pappíra til staðfestingar því að vera að flytja heim eftir tveggja ára dvöl, en ákvað samt að sleppa mér við að gera úr þessu eitthvað pappíramál enda væri mér þessi innflutningur heimill svo lengi sem satt reyndist að ég væri að flytja.

Við kvöddumst því með virktum og ég og Mini héldum út í íslenska vetrarsólina.

Það fer svo alveg að koma að því að ég rölti yfir á Flyðrugrandann og kíki á íbúðina - á reyndar ekki von á að þar sé neitt athugavert, en er forvitinn að sjá hvernig stemmningin verður þegar þangað kemur, hvort mig grípur t.d. óstjórnleg löngun til að mála eitthvað áður en ég flyt inn.

Frásögn af ævintýrum síðustu daganna í Köben, einkum þess næstsíðasta bíður örlítið.

En það er fínt að vera kominn heim.


< Fyrri færsla:
Allt að hafast
Næsta færsla: >
Vítislogar hirði spammara
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry