Flytjandi (aftur) inn

Það er svolítið skrítin tilfinning sem fylgir því að flytja aftur inn á sama stað eftir tvö ár og verða hálfhissa yfir því sem kemur upp úr geymslunni (og kannski ekki síður því sem ekki kemur upp úr geymslunni).

Það verður að viðurkennast að ég hef tekið mér drjúgan tíma í þessa innflutninga mína, en þetta er allt að hafast.

Framkvæmdalegur dugnaður hefur heldur ekki verið gríðarlegur, en gólf hafa verið bónuð (fékk sérfræðing með mér í það mál) og... that's about it.

Ég stefni á að nýta mér góða veðrið í dag í að olíubera svalahúsgögnin og borðplötuna á baðinu. Þarf bara að skjótast og kaupa mér pensil fyrst.

Það er enn stefnan að spasla í og mála yfir flísarnar í eldhúsinu, en það er svo sem ekki mál sem bráðliggur á (og hefur því verið komið fyrir á hakanum að sinni). Annað hakamál er að ég er búinn að átta mig á því hversu lítill gljái er í málningunni á baðinu, þar er freistandi að skella aðeins yfir hærri gljáa við tækifæri - en sett á hakann í bili.

Nettengingin verður á vegum Hive, þar er bara eftir að finna mér sæmilegt símanúmer (ekki að ég eigi von á að margir hringi í mig yfir landlínuna, en samt) (svo held ég að gamla númerið mitt sé enn í geymslu hjá Símanum, þannig að það verður kannski virkjað aftur einhvern daginn) (held það eigi alveg að ganga að færa það við tækifæri yfir Hive númerið) (voðalegur subbuskapur er af öllum þessum svigum).

Upp úr kössunum

Það er líka svolítið skondið að taka upp úr kössum eftir tvö ár, þar spyr maður sjálfan sig spurninga á borð við:

  • Ha, átti ég svona?
  • Hvar í helv. kom ég þessu eiginlega fyrir?

  • Hvar er húfan mín? Hvar er hempan mín? Hvar er falska, gamla, fjögra gata flautan mín?

Annars er stefnan sú að muni ég hvar hlutir voru áður (t.d. myndir og álíka) er þeim skellt þangað upp aftur og svo ákveð ég seinna hvort þeim verði skipt út fyrir eitthvað annað.

Ég lenti t.d. í brasi við að taka upp úr eldhúskössunum, því ég gat ómögulega fundið stað fyrir matvinnsluvélina. Þar til ég uppgötvaði neðri skáp sem ég hafði alveg gleymt og upp rann fyrir mér þetta fína ljós um að þar hafði hún einmitt verið geymd áður.

Fatakassana er ég ekki enn búinn að tæma og óir aðeins við tilhuxuninni um föt sem mér þótti ekki ástæða til að taka með fyrir tveimur árum og hef ekkert saknað síðan.

Verst er þó það sem ekki er að skila sér upp úr kössum. Ég hefði t.d. getað svarið að ég ætti að eiga miklu fleiri herðatré, fjöltengi og sitthvað fleira. Sömuleiðis hef ég það sterklega á tilfinningunni að skelli ég mér á að kaupa svona 10-20 herðatré, muni ég daginn eftir finna í geymslunni poka með 10-20 herðatrjám.

En horfandi á björtu hliðarnar, þá eru í því minni útgjöld en í t.d. 10-20 tvíkeyptum borðstofustólum.

Tómlegt yfir að líta

Slotið er annars heldur tómlegt sem stendur.

Í alrýminu er reyndar borðstofuborðið og 6 stólar, en í stofuhluta alrýmisins er sem stendur bara gamall "hæginda"-stóll sem ég eignaðist þegar ég flutti að heiman í menntaskóla (og ber með sér vissan eitís-keim) og halógenlampi sem keyptur var í stíl.

Náttborðin sem gegnt hafa hlutverki sjónvarpsskáps fara reyndar að skrúfast saman hvað úr hverju, en sjónvarpið er enn í vöruskemmu í Danmörku og heimabíógræjurnar að öðru leyti ósóttar á Fálkagötuna þannig að náttborðin verða tóm fyrst um sinn.

Í vinnuherberginu eru bókaskáparnir reyndar nokkurn vegin eins og þeir eiga að sér að vera, en í ljósi drauma um að smíða mér tveggja fermetra skrifborð er ég bara búinn að skella upp bráðabirgðaskrifborði.

Og enn eru nokkrar vikur í að búslóðin skili sér og þar með sófinn sem ég treysti á að geri eins og mottan í Big Lebowski forðum og hnýti stofuna saman.

Vinna nálgast

Ég er búinn að kíkja á Snorrabrautina og lofa mér á fyrsta fund á mánudagsmorgun. Ég mun vera kominn með tölvu og borð, en stóllinn var ókominn síðast þegar fréttist.

Það er líka komin tillaga að starfstitli, en ég treysti mér ekki til að hafa hann rétt eftir - svo afhjúpun hans bíður enn um sinn.

En mig minnir að hann hafi eitthvað með vöruþróun, markaðsmál og almenn tengsl að gera.

Eða eitthvað í þeim dúr. Minnir mig...

Á mannamáli sýnist mér samt að mín verkefni verði aðallega að leysa ýmislegt sem bossarnir hafa ekki haft tíma til að sinna, þannig að mér verði kannski best lýst sem einhvers konar aðstoðarbossa (eða undirbossi).

En ég ætla sem sé, þrátt fyrir ábendingar um annað, að hefja störf á fullri vinnuviku frá mánudegi að telja.

Með því verð ég líka með heilum degi lengri starfsreynslu en Sigmar bróðir, sem mér skilst að ætli að hefja störf hjá Hugsmiðjunni á þriðjudag.

Brandarar um það hvort við bræður munum mæta með nestisbox í stíl eru vinsamlega afþakkaðir.

Íslenska dýrtíðin

Það á eftir að koma í ljós hversu langan tíma það tekur mig að aðlagast íslenskri dýrtíð. Hef þó ekki fengið teljandi flogaköst yfir því ennþá.

Már spurði mig sposkur að því hvort ég væri, sem blankur námsmaður komandi frá útlöndum, byrjaður að safna flöskum til að hafa í mig og á. Ég gat svarað því játandi, ég væri kominn með eina.


< Fyrri færsla:
Kebabinn steypti mér
Næsta færsla: >
Byrjaður að vinna
 


Athugasemdir (4)

1.

Óskar Örn reit 13. október 2006:

Árni Hermann Boggabróðir vinnur held ég líka hjá þessum smiðum þarna. Virðist toppstaður!
Sá annars á heimasíðunni þeirra að þarna eiga víst að vinna menn sem heita ótrúverðugum nöfnum eins og Hübner, Baxter og Bridde. Hef því ákveðnar grunsemdir um að þetta sé allt saman platfrontur fyrir kompaní sem lætur innflutta láglaunakínverja setja saman síkkrisnælur fyrir skítakaup. Að næturlagi..
Jamm. Held ég fari að taka lyfin mín.....!

2.

Siva reit 13. október 2006:

Velkomin heim, mundu bara að fara með allt dótið og fötin sem þú nennir ekki að eiga í endurvinnslu, rauða krossinn eða eitthvað, bara EKKI Í RUSLIÐ !! Það er sóun á verðmætum og hvergi pláss á neinum haugum.

3.

Þórarinn sjálfur reit 13. október 2006:

@ Óskar: Ég hef unnið með Baxter og Hübner áður, þannig að ég get a.m.k. vottað að þeir eru ekki frontar fyrir neina kínverja. Bridde á ég eftir að kynnast betur. Nærvera Boggabróður barst í tal á Nørrebrú eitthvert kvöldið.

@ Siva: Já, ég mun kappkosta það. Þegar ég flutti út fóru einhverjir garmar í búningasafn Hugleiks (og hef ég m.a. séð eina peysu af mér í jólaleikriti) (þú ættir nú að kunna að meta slíka endurvinnslu - leikfélagsreddarinn sjálf). Annað fór í fatagám hjá Sorpu. Geri líklega eitthvað svipað að þessu sinni.

4.

Siggalára reit 16. október 2006:

Og svo er fundur vegna jóladagskrár Hugleix annað kvöld, (þriðjudagskvöld) klukkan 20. Upplagt að tækifæri til að tékka sig inn. Ekki verra að vera með jólaþátt í farteskinu. ;-)

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry