Næstum orðinn hívaður

Þá er ég næstum orðinn nettengdur hjá Hive. Ég er búinn að fá þráðlausa boxið og fartölvan getur tengst boxinu en internetið er eitthvað tregt að leika við boxið. Bendir til að eitthvað eigi eftir að gera til að virkja ADSL tenginguna. IP símaaðgang fæ ég svo einhverntíman á næstunni.

Reyni líklega að ýta við þeim á morgun og athuga hver staðan sé.

Af öðrum framkvæmdum á Flyðrugrandanum er helst að nú er að verða kominn almennilegur ylur á alla ofna, svefnherbergisofninn hefur verið með svalara móti og stillikrani brotinn á skrifstofunni. Ég fór því í Byko í gær, keypti nýjan Danfoss loka og lykil til að hleypa lopti af ofnum.

Loftgangur reyndist hins vegar ekki há neinum þeirra ofna sem ég réðst á og lyklaði. Eftir að hafa stúderað mekanisma nýja kranans ákvað ég að skrúfa kranann í svefnherberginu af og setja aftur á. Mér sýnist það hafi dugað til þess að hann sé smám saman að glæðast til lífs.

Líður á vinnuvikuna

Nú er ekki nema einn dagur eftir af vinnuvikunni (er ekki örugglega fimmtudagur í dag?

Þetta hefur annars verið prýðisvika, ég hef bara náð að gera slatta, aðallega í textaskrifum fyrir nýtt vefsvæði sem verður opnað með lúðraþyt og músasmellum í byrjun nóvember. Þar hef ég verið að wikiast eins og vindurinn. Sniðugar græjur svona wiki.

Næsti höfuðverkur sýnist mér vera að þvæla sig í gegnum samning á þýsku. Veit ekki alveg hvernig það á eftir að ganga. Tækla það á morgun.

En hins vegar er svolítið erfitt að vinna á ekki stærri vinnustað með öðrum Þórarni, ég er alltaf að líta upp þegar einhver ávarpar hann. Til að reyna að forðast misskilning er ég "Tóró" í vinnunni, en það breytir því ekki að ég sperri eyrun þegar ég heyri nafnið Þórarinn.

Ég hef svo sem unnið með Þórarni áður, en þá var þetta einfaldara; hann var Tóti og ég Tóró án þess að ég muni til að nokkurn tíman hafi komið upp misskilningur. Kannski að einstaka símtal til Þórarins hafi ratað ranga leið, en ég er þó ekki einu sinni viss um það.

En þetta er búin að vera fín vika so far, og mér sýnist að ég hafi valið rétta djobbið af þeim sem í boði voru.

Átta hliða teningar

Annars rak ég um daginn nefið inn í hina notalega nördalegu verslun Nexus og kom þaðan út með mína fyrstu átta hliða teninga. Fimm talsins. Ásamt fleiri fylgihlutum. Get vart beðið eftir að fá tækifæri til að nördast með þá.

Það er a.m.k. borðstofuboð á Flyðrugrandanum. Og stólar. Og bjór.

En ekki mikið annað...


< Fyrri færsla:
Gómaður í jólaleik
Næsta færsla: >
Allt of samviskusamur
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry