Gómaður í jólaleik

Á þriðjudagskvöldinu var haldinn fundur hjá Hugleik vegna fyrirhugaðrar jóladagskrár í Þjóðleikhúskjallaranum í upphafi desember. Lesnir voru einhverjir sex einþáttungar og stefnir í að bróðurpartur þeirra verði settur upp og sýndur umrædd kvöld.

Það er greinilega í tízku að skrifa jólaleikrit með karlhlutverkum og því ljóst að nýta þarf mestallan karlpening Hugleiks sé þeirri stefnu viðhaldið að reyna að forðast að sömu leikarar séu í mörgum stykkjum.

Er þar aðalsökudólgurinn formaður félagsins sem skrifaði stykki fyrir 6 eða 7 karlpersónur (man ekki hvort var), auk þess sem jólasveinar eiga það víst frekar til að vera karlkyns en hinskyns.

En það er sem sé búið að sjanghæja mig í hlutverk afgreiðslumanns í stórmarkaði í verki sem að öllum líkindum verður endurskírt Bónusförin í höfuðið á misheyrslu blaðamanns Morgunblaðsins sem var á því að fyrsta leikrit Hugleiks hefði heitið Bónusförin (var raunar Bónorðsförin, skrifað 1852, nokkru fyrir daga Bónusfeðga).

Það verður fróðlegt að stíga á stokk á ný. Meira um það síðar.

Flughafnarblús

Eitthvað virðast kynni mín af alþjóðlegum flugvöllum þann rúma mánuð frá lokaverkefnaskilum til heimfarar sitja í draumabúinu, því þrjár nætur í röð dreymdi mig drauma sem tengdust flughöfnum á einhvern hátt. Dæmigert þema virtist vera að ég væri að fara að fljúga heim, uppgötvaði að ég ætti eitthvað ógert (t.d. að bóka flug eða koma einni tösku fyrir inni í annarri) og væri síðan í miklum lestaþvælingi til að komast á áfangastað.

Í einni útgáfunni var ég t.d. búinn að festa mér dag, en átti samt eftir að bóka eitthvað og var spenntur að sjá hvaða verð yrði á miðanum að lokum, Næst vakti móðir mín blessunin mig og tilkynnti mér að nú væru tveir tímar í flug, þannig að ég ætti kannski að fara að mjaka mér af stað. Ekki var ég nú stressaðri en svo að ég hengslaðist í flughöfninni (sem átti örugglega að vera Kastrup) í kringum hóp íslenskra grunnskólakennara sem voru í einhverri kæruleysisför í útlandinu, margir hverjir að teygja úr sér á grasflöt þarna í flughöfninni. Einn þeirra lá þar kviknakinn, en þar sem hann var ekki alveg mín týpa staldraði ég ekki frekar við þann fugl í draumnum. Skammt þar frá voru nemendur þeirra (sem reyndust á menntaskólaaldri) með einhver uppsteyt og príluðu upp á og veltu innanhússgirðingu.

Næsta skref var að velja sér sæti í vélinni og það var hægt að gera með því að skoða á myndavél hvernig fólk var byrjað að raða sér í sætin og velja þannig áhugaverða sessunauta. Mig minnir nú að ég hafi bara valið gangsætið í tómri sætaröð og á leið þangað var mér bent á að það væri miklu fljótlegra að ganga undir flugvélaskrokkinn og taka lyftuna þaðan og upp í vélina. Man ég ekki hvað fleira bar fyrir í þeirri ferð.

Þetta er ef til vill áminning frá heilabúinu um að ég ætti að klára að festa á rafrænt blað hamaganginn sem var síðasta heila daginn minn í Köben (þótt ferðadagurinn sjálfur hafi hins vegar verið með afslappaðasta móti) og koma því þannig í varanlegri geymslu og tæma úr kollinum.

En annars er orðið laust fyrir draumaráðningar.


< Fyrri færsla:
Byrjaður að vinna
Næsta færsla: >
Næstum orðinn hívaður
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry