Allt of samviskusamur

Dagbókarþögnin stuttlega rofin. Það stendur eitthvað í Hive-mönnum að fá tenginguna mína til að virka, fékk tæknimann um daginn og skv. honum er vandamálið annað hvort hjá Símanum eða í leiðinni út úr húsi hjá Hive.

Fyrir vikið er ég eiginlega bara nettengdur í vinnunni og þar er ég of samviskusamur til að taka tíma í að blogga. (Þótt ég stelist til þess núna).

Raunar er ég ekki mikið heima þessa dagana, þannig að spurning er hvort ég myndi nota nettenginguna mikið ef hún væri komin upp. Önnur spurning er svo kannski hvort ég væri meira heima ef nettengingin væri komin upp, sjónvarps- og netlaus er ekki mikið við að vera á kvöldin.

Annars er allt gott að frétta. Ég held mér gangi þokkalega að gera eitthvað gagn í vinnunni, þótt það sé eflaust annarra að dæma um það.

Meiri vitleysan

Fór á leiklestur tveggja nýrra leikrita hjá Hugleik í gærkvöldi. Bæði eru þátttakendur í slagnum um að verða vorverkefni félagsins.

Lesarar og áhorfendur áttu á köflum bágt með sig sökum hláturskasta, þannig að þetta lofar góðu fyrir endanlega útkomu.

Sjálfum varð mér nú að orði að það er meiri vitleysan sem vellur upp úr fólki í þessu leikfélagi.

Sem er gott...

Mér skilst að von sé á enn meiri vitleysu í næsta leiklestri sem verður á laugardaginn.


< Fyrri færsla:
Næstum orðinn hívaður
Næsta færsla: >
Að gefnu tilefni
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry