Út úr skápnum

Eins og allir sem halda úti opnum dagbókum (blogga) hef ég reynt að koma mér upp einhverskonar þumalfingursreglum um það hvað eigi erindi í dagbókina og hverju ég vilji halda sem mínu einkamáli.

Þótt skilin þar á milli séu ekki meitluð í stein hefur mín loðna skilgreining reynst mér ágætlega, þótt ég eigi það eflaust oft til að rausa hér um hluti sem öðrum þætti kannski eðlilegra að halda fyrir sjálfan sig þá er ýmislegt sem ég myndi hugsanlega skrifa í harðlæsta einkadagbók en læt ósagt hér.

Málin taka svo að flækjast þegar atvik eða hlutir flokkaðir undir einkamálin taka að verða hluti af hversdeginum, eins og þegar stefnumót sem hvergi eru nefnd verða að sambandi. Hvernig er þá best að létta hulunni af leyndarmálinu?

Með því að aflétta leynd upp úr þurru og láta bara eins og allir lesendur hljóti að vita hvað um er rætt, eða reynir maður að smám saman mjaka leyndarmálinu út í dagsbirtuna?

Ég hafði séð fyrir mér að nota frásögn af dögum okkar Alex í París til að kynna sambandið til sögu undir rós, en vegna anna er ég ekki enn búinn að klára ferðasöguna og það plott því meira eða minna fallið um sjálft sig.

En nú er það að reyna að halda þessu sambandi undir radarnum, einungis til að halda í þessi skil milli opinberra og óopinberra einkamála, eiginlega farið að flækjast óþarflega fyrir mér í dagbókarskrifum og kominn tími til að leggja spilin á borðin.

Ég er sem sé á föstu og hef verið síðan síðsumars og ástæðan fyrir því að ég hef ekki verið sérlega mikið á Flyðrugrandanum er kannski ekki bara sú að þar vanti sófa, sjónvarp og nettengingu.


< Fyrri færsla:
Stendur í Hive
Næsta færsla: >
Kúkur í buxunum
 


Athugasemdir (5)

1.

Óskar Örn reit 29. október 2006:

Ég mæli með frekari greinargerð varðandi partnerinn, ekki síst þar sem "Alex" er í huga flestra Íslendinga karlmannsnafn! En kannski er þetta líka enn eitt plottið hjá þér. Keep em guessing, eh!?

2.

Þórarinn sjálfur reit 29. október 2006:

Já, þú meinar það...

Alex heitir sem sé Alexandra (og er ekki dönsk).

3.

Ólöf reit 31. október 2006:

Er þetta nokkuð Alexandra prinsessa? Hún er jú ekki dönsk og ku vera komin með mann upp á arminn??

Sé að það verður að fara að bjóða í "bröns" mjög fljótlega...

4.

Þórarinn sjálfur reit 02. nóvember 2006:

Góð spurning Ólöf, en þetta er ekki sú Alexandra :)

Bröns hljómar vel.

5.

Júlía reit 03. nóvember 2006:

Hvernig væri að kynna Alex fyrir félögum þínum í kjallaranum á sunnudaginn?
Maður er orðinn svo skemmtilega forvitinn.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry