Kúkur í buxunum

Það er kannski að bera í bakkafullan lækin að ætla að tjá sig um hvalveiðar, en ég geri það nú samt.

Það er klárlega réttur okkar að nýta hvalastofnana eins og okkur sýnist, svo lengi sem veiðarnar setja ekki hvalastofnana í hættu. Blessunarlega eru stofnarnir í góðum gír og því engin vistfræðileg rök gegn veiðum.

En ef ríkisstjórnin ætlaði sér að leyfa hvalveiðar á morgun þyrfti fyrst að reikna dæmið í gegn og bera saman plúsa og mínusa á einföldum krónubasís.

  • Á hvaða mörkuðum yrðu afurðirnar seldar og hverjar yrðu útflutningstekjurnar?
  • Hversu mikið munu fiskistofnarnir styrkjast ef X hvalir eru veiddir á ári? Hverju gæti það skilað í auknar þjóðartekjur (miðað við íhaldssömustu og bjartsýnustu forsendur)?
  • Hversu mikið mun kynningarherferð á málstað okkar (PR átak) kosta og hverju er ætlað að hún skili?
  • Hversu mikið munu hvalveiðar kosta ferðaþjónustuna?
  • Hversu mikið munu hvalveiðar skaða aðra viðskiptahagsmuni Íslendinga?
  • Hvernig er hægt að skipuleggja saman hvalaskoðanir og hvalveiðar, t.d. með skilgreindum hafsvæðum sem ekki skarast?
  • Hvernig má lágmarka ímyndarlegan skaða með því t.d. að reyna að stýra því hvaða myndefni af veiðum er dreift til erlendra fjölmiðla?

Ef dæmið reynist vera í plús má íhuga það alvarlega að láta slag standa.

En úps! Ríkisstjórnin er búin að leyfa hvalveiðar og hefur eftir því sem ég best veit ekki svör á reiðum höndum við einni einustu af ofantöldum spurningum.

Hún virðist ekki hafa önnur rök en "Liggaliggalá, við megum sko víst alveg veiða þá!"

Þetta kallast eiginlega í minni sveit að vera með kúkinn í buxunum.

A.m.k. þættu þetta ekki gáfuleg vinnubrögð í viðskiptarekstri.


< Fyrri færsla:
Út úr skápnum
Næsta færsla: >
Í öðrum fréttum
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry