Í öðrum fréttum

Örstutt stöðuskýrsla:

Vinnan

Í vinnunni er ég kominn með langan verkefnalista, en er að reyna að einbeita mér að fáum verkefnum í einu. Þar eru aðallega þrjú verkefni sem eru á dagskrá þessa dagana og eru þau pínu leyndó, ekki sérlega mikið leyndó og soldið mikið leyndó.

Leyndinni verður þó aflétt eftir því sem fram vindur. Fyrsta verkefnið verður opinberað fyrir miðjan næsta mánuð, það næsta vonandi í desember og það þriðja í janúar.

Annars var haldinn starfsmannafundur síðastliðinn föstudag. Þar var kynnt nýtt skipurit og þá komst ég að því að ég er orðinn að eins manns stoðdeild (ein af þremur slíkum innan fyrirtækisins) og spennandi hlutir framundan.

Hugleikur

Af Hugleixkum slóðum er það fréttnæmt að ég fylgdist með leiklestri á tveimur nýjum leikritum á laugardag.

Ég hef fylgst með litlu veiku stúlkunni Sóley gefa upp öndina nokkrum sinnum í verkum Hrefnu, en vonaði að með nýjum liðsauka í ævintýraheimum myndi henni ganga betur en áður að kljást við drekann sem er holdgervingur veikindanna sem hrjá hana og draga úr henni mátt. Ljóstra engu upp um það hér hvernig fór að þessu sinni. Þetta verk yrði krefjandi í uppsetningu en yrði örugglega eftirminnilegt öllum sem sæju.

Einnig var lesið leikrit eftir Hjörvar nokkurn Pétursson, MA-ing og rugludall. Það leikrit mun eflaust taka nokkrum hamskiptum og breytast í kortérs til tuttugu mínútna einþáttung. Gæti orðið mjög skemmtilegt sem slíkt, enda grunnhugmyndin góð.

Sósíalið

Mér hefur gengið illa að saxa á listann yfir vini og kunningja sem ég á eftir að hitta, aðallega vegna erfiðleika við að finna tíma sem öllum hentar. Stefni þó að því að geta tékkað við nokkur nöfn í komandi viku.

Á laugardagskvöldinu fór ég í partí með Alex þar sem umræðuefnin voru fjölbreytt og bráðfyndin: Lítt þolandi stjúpfeður, stefnumót frá helvíti, klukkubrengl, sjónvarpsgláp og sjálfsvíg gæludýra, pikköppsögur og viðtöl sem ekki hafa verið tekin um kjaftasögur sem aldrei hafa verið sagðar eru aðeins örfá dæmi um umræðuefni kvöldsins.

Mjög skemmtilegt kvöld, en við héldum heim á leið um þrjúleytið þegar aðrir gestir héldu ýmist heim á leið eða á barhopp.

Svo hefur verið letidagur í dag (og líklega í síðasta sinn sem mér tekst að plata Alex til að spila Risk 2210 AD við mig).


< Fyrri færsla:
Kúkur í buxunum
Næsta færsla: >
Hugleikur segir sögur
 


Athugasemdir (1)

1.

Alex reit 30. október 2006:

Þetta er nú meira nördaspilið. Næst ætla ég að prjóna á meðan.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry