Tylkinning og fylgiskjöl

Í þá gömlu daga þegar ég hóf störf hjá Gæðamiðlun var í fyrstu viku öllum starfsmönnum boðið til grillveislu af fyrirtækinu. Hér hjá Hugsmiðjunni var það að vísu "ekki fyrr en" í þriðju viku sem boðið var til veislu, þannig að mér sýnist áhrifamenn á svipuðum nótum og áður varðandi eflingu starfsanda.

Í gær var sem sé öllum starfsmönnum stefnt á Thorvaldssen (sem mér sýnist að muni vera company hangout nýju vinnunnar) í hádegismat. Þar reyndist reyndar lokað svo mannskapurinn tróð sér við langborð á Hressó þar sem ég pantaði (og snæddi) eðal lambalærissneiðar með öllu tilheyrandi.

Seinna um daginn neyddi ég svo Sigmar bróður til að skutla mér í tollinn með komutilkynningu búslóðarinnar og sitthvað af pappírum. Þar afgreiddi mig kurteis en afskaplega lítt lífsglaður tollari sem rukkaði mig um pappíra (blessunarlega hafði ég tiltækt það sem hann bað um) og benti mér í gegnum hin ýmsu eyðublöð. Þar tókst mér að skrifa "tylkinning og fylgiskjöl" í einn reitinn, en ákvað að frekar en að byrja aftur á eyðublaðinu að láta mig hafa það að skilja eftir undirritað dokúment í stjórnkerfinu með þessari meinlegu ritvillu.

Svo kemst ég að því í dag hvort þeir taki þessa pappíra góða og gilda og hleypi búslóðinni í gegn þannig að ég geti farið að nálgast hana hjá Samskip.

Þannig að það er (enn) möguleiki að ég fái afganginn af dótinu mínu í hús um helgina.

Einhverjar ábendingar um sendibílastöðvar sem gætu liðsinnt mér við verkið? Eru einhverjir ódýrari en aðrir eða er þetta allt sama tóbakið?


< Fyrri færsla:
Hugleikur segir sögur
Næsta færsla: >
Mikið fyrir haft
 


Athugasemdir (1)

1.

Jón Heiðar reit 03. nóvember 2006:

Hmm tóku þeir ekki bara upp hanskana þegar þú komst til landsins?

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry