Mikið fyrir haft

Á föstudegi hringdi ég í tollinn og fékk að vita að pappírarnir mínir væru tilbúnir. Alexandra átti erindi á Grensás, þannig að ég samdi við hana um að renna með mig í tollin og þaðan í Samskip.

Ég hafði velt því fyrir mér að sækja búslóðina á laugardegi, en komst að því að Samskip væru ekki opin á laugardögum - og það sem meira væri að ekki væri opið nema til hálffimm. Þannig að í nokkrum flýti ákvað ég að drífa í að klára málið, panta sendiferðabíl og semja við Sigmar um að koma og hjálpa mér eftir vinnu.

Þegar ég kom svo í vöruafgreiðsluna hjá Samskip kom babb í bátinn og eitthvað tollavesen með sófann, þannig að ég gat ekki fengið hann. Ég hef grun um að rót vandans sé að sófinn komi á öðru sendingarnúmeri, þótt ég vissi ekki af því þegar ég fór í tollinn - hins vegar var hans getið á pappírunum, þannig að ég held að þetta sé spurning um að þetta hafi farið þversum í pappírsferlinu frekar en að það sé alvöru vesen.

En þar sem ég var með sendiferðabíl á tifandi gjaldmæli var ekki um annað að ræða en taka hitt dótið og koma því heim. Ég hafði fengið lánaðan bíl Alex og lenti í föstudagsöngþveiti á Sæbrautinni og í miðbænum (wrong choice - I know).

Sigmar kom svo og hjálpaði mér að ryðja dótinu upp í íbúð og við náðum því passlega að koma öllu inn áður en himnarnir opnuðust. Kvöldið fór svo í að dunda sér við að tína upp úr kössum og tengja tölvugræjur.

Eftir svolítið bras tókst að koma Stubbi á netið og tónlistarstreymirinn fylgdi í kjölfarið.

Ég hef enn ekki fundið mér tíma til að hringja í Samskip og komast að því hversu mikið vesen það verður að koma sófanum síðustu metrana í mark.

Bíð bara spenntur eftir því að taka umbúðirnar utan af honum og sjá hvort hann sé nokkuð bleikur...

Á laugardeginum gerðist heldur fátt í innflutningsmálum. Á hvíldardeginum fórum við Alex hins vegar í IKEA og varð úr því mikill leiðangur.

Hafandi lifað af tvær ferðir í IKEA í Lyngby kom stærðin mér ekki sérlega á óvart, en það er vissulega drjúgt verk að þvæla sér í gegnum alla verslunina. Reyndar keypti ég engar mublur, en spáði töluvert og keypti slatta af smámunum misstórum.

Á leiðinni til baka vorum við ekki alveg viss á hvaða akrein skyldi velja, en Alex kvað upp úr um það að við skyldum halda okkur til vinstri. Sú leið reyndist hins vegar leiða okkur í hina áttina, í átt til Hafnarfjarðar í stað þess að fara framhjá Smáralindinni - en þegar við ókum yfir brúna létti okkur mjög að hafa farið ranga leið því það var bíll við bíl svo langt sem augað eygði í hina áttina. Hins vegar var enginn á leið í Hafnarfjörð og leið okkar því greið.

En mér sýnist samt að ég þurfi líklega að fara aftur fljótlega og kaupa mér nokkur herðatré í viðbót...


< Fyrri færsla:
Tylkinning og fylgiskjöl
Næsta færsla: >
Sófi og flugnafjöld
 


Athugasemdir (2)

1.

Adalsteinn Hallgrimsson reit 07. nóvember 2006:

Heyrdu leidinlegt með sófann ég sem hélt að þetta hefði verið alveg pottþétt. En ég ætti kannski að nefna það við þig að þetta er rauður latex sófi - bleiku voru búnir. Það skýrir kannski tollvandamálin.

Það væri gaman ad fá myndir ad Alex og sófanum þegar þetta er allt komið á sinn stað.

Kv. AH

2.

Þórarinn sjálfur reit 08. nóvember 2006:

Ef sófinn reynist rauður latex sófi lofa ég að senda þér innrammaða mynd af Alex liggjandi í honum.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry