Tónleikar og fleira

Á föstudagskvöldið fórum við Alex á tónleika með Sufjan Stevens í Fríkirkjunni. Við vorum svolítið sein fyrir þar sem kvöldmatarskipulag hafði aðeins farið úr skorðum þannig að við stöldruðum við á Iðu (Kvisnós var lokað) þar sem ég slarfaði í mig súpu.

Þegar við komum svo á tónleikana rétt í þann mund að upphitunin var að hefjast kom í ljós að aðstandendur höfðu ekki dregið af sér í miðasölunni og endaði með því að við sátum á kirkjugólfinu þar til upphituninni (sem mér þótti prýðileg) lauk. Þá var okkur bent á "tvö sæti" innst á bekk og eftir að hafa þjappað okkur vandlega upp að stúlkugreyinu við hliðina á okkur tókst að búa til rétt tæplega tvö sæti, þannig að ég sat á 1,5 rasskinnum út tónleikana.

Sufjan, sem ég veit núna lox hvernig á að bera fram, stóð sig með prýði og var skemmtilegur performer. Ef það var eitthvað út á tónleikana að setja þá var hljómsveitinni fulltamt að leiða lögin frá hugljúgum tónum út í hávaða og djöfulgang sem Fríkirkjan var ekki alveg að hæfa fyrir.

En þetta voru mjög skemmtilegir tónleikar.

Eftir þá snerum við aftur á Iðu, í þetta sinn með Óskari og Imbu til að hin síðarnefnda fengi færi á kvöldverði. Þegar við vorum rekin þaðan út kl. 22 var sófinn frægi "gestavígður" (ég vona að Alex og Sigmar fyrirgefi mér að hafa ekki talist til gesta) þegar þau hjónaleysin komu hingað í bjór, gos og nammi.

Á laugardeginum heimsóttum við ömmu Alexöndru í létt snarl og eftir kíktum við aðeins í Mörkina og keyptum efni í púðaver utan um stóra púða sem ég tók með mér frá Köben, en voru ekki litasamræmdir. Þaðan fórum við í Hagkaup í Skeifunni og keyptum lambalæri og meððí.

Pabbi var nefnilega að koma úr sögulegri hrakningaför með töfum hátt á þriðja sólarhringinn í heildina. Í tilefni af því var efnt til grillveislu á Flyðrugrandanum.

Alex var mér til halds og trausts og ég held mér sé óhætt að fullyrða að við höfum staðið okkur vel - gestirnir voru a.m.k. ekki að kvarta.

Hið nýslegna afmælisbarn, Vilborg, var í sérlega miklu stuði fram eftir kvöldi - en punkteraðist þá nokkuð snarlega.

Það gerðum við skötuhjúin skömmu eftir að síðustu gestir kvöddu og nenntum því ómögulega í partí sem við vorum boðin í. Þegar við vöknuðum á sunnudagsmorgun og heyrðum fréttir af ævintýrum næturinnar vorum við eiginlega bara fegin.

Á sunnudagskvöldinu fórum við svo að sjá The Departed í bíó. Fín mynd.

Núna er stefnan tekin á Mýrina. Meira síðar.


< Fyrri færsla:
Þvílíkur ógeðslegur kuldi
Næsta færsla: >
Orð mín afturtekin
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry