Svið á stígandi

Nú styttist í að ég geri glæst kommbakk mitt inn í íslenskt leikhússlíf, vopnaður inkaupakerrum og nýstárlegum jólakræsingum. Mun þessi langeftirbeðni atburður eiga sér stað á jóladagskrá Hugleiks í Þjóðleikhússkjallaranum þriðjudaginn 5. desember næstkomandi.

Fer ég þar með lítið en afskaplega veigamikið hlutverk stimamjúks starfsmanns ónefndrar verslunar á stór-Hafnarfjarðarsvæðinu og reyni, líkt og áður hefur verið ýjað að, að vegsama kosti og hagkvæmni nýstárlegs jólagóðgætis.

Þótt rullan sé ekki sérlega stór (en vissulega veigamikil) hefur mér nú ekki tekist neitt of vel að muna allar línurnar mínar sex á þeim tveimur æfingum sem þegar hafa farið fram.

Enn eru þó nokkrir dagar og nokkrar æfingar til að fínslípa texta og raddblæ eftir óskum leikstjóra vors.

Á þeim æfingum text einnig vonandi að æfa betur fyrirhuguð stöntatriði og kerrukappakstra sem fléttað hefur verið inn í þetta skondna verk doktor Tótu, sem áður hét Kerrur* en hefur undanfarið gengið undir vinnuheitinu Bónusförin.

Eitthvað hef ég nú minnst á þetta hlutverk, en þykir rétt að plögga þessu aftur þegar dagsetningar eru teknar að liggja fyrir hunda og manna fótum.

Það verður sum sé sýnt 5. og 7. desember kl. 21 í Þjóðleikhúskjallaranum og eru þeir lesendur sem ekki láta sjá sig þar réttnefndir ferningar (nema þeir búi í útlöndum eða utan þjónustsvæðis Strætó bs.).

*) Þ.e. leikþátturinn hét áður Kerrur, dr Tóta hét áður og heitir enn Þórunn Guðmundsdóttir.


< Fyrri færsla:
Þráður millum tanna
Næsta færsla: >
Flatt á aðsókninni
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry