Flatt á aðsókninni

Þótt ég vilji trauðlega játa á mig of mikinn hégóma varðandi þessi dagbókarskrif mín er ekki laust við að ég hafi rekið augun í lágdeyðu og flatneskju mikla í aðsóknarsúlum hér til vinstri á forsíðu. Veit ég ekki hvort lesendur hafa endanlega gefist upp á stopulleika mínum, en a.m.k. hefur smám saman færst til vinstri súla ein fástæð, líkt og symbólískt fokkmerki.

En ætli ég kenni ekki bara um slæmri færð hérna á klakanum. Ekki fæst ég til að viðurkenna á sjálfan mig þá skömm að hafa ekki staðið undir lestrarlegum væntingum undanfarnar vikur.

Kannski ég ætti að grípa til örþrifaráða og skrifa eitthvað um Þjóðkirkjuna, Þjóðskrá, barnaát og faxtæki eins og Már félagi minn gerði nýlega. Viðbrögðin við þeirri sakleysislegu færslu hans hafa verið mikil og lygilega heiftarleg á köflum (ég sá nokkur kommentin áður en þeim var eytt) og ég verð að játa á mig nokkra forundran. Þær stöllurnar kirkja og skrá Þjóðarinnar eru greinilega mörgum hugleiknar.

En ætli ég láti slíkt ekki eiga sig í bili. Mér sýnist ég vera kominn upp í fimm færslur í dag og ef back-takkanum er beitt ætti því hver heimsókn á morgun að geta talist sem allt að 9 síður.

Svo er ég búinn að senda sjálfum mér einhvern slatta af linkum til að blogga um, en ég held ég geymi mér þá aðeins.

Reyni frekar að byggja upp smá spennu...


< Fyrri færsla:
Svið á stígandi
Næsta færsla: >
Eitthvað í ólagi
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry