Minns í hljóðveri

Í síðastliðinni viku varð sá fáheyrði atburður að ég settist í hljóðver með höfuðfóna yfir eyrum og hljóðnema framan smettis til þess að taka upp um hálfa mínútu af minni hljómfögru rödd.

Síðast var ég líklega tekinn upp þegar ég var í starfskynningu í níunda bekk og las meðal annars einn auglýsingapakka og nokkrar fréttir í svæðisútvarpi Austurlands á Rás 2 (auk þess að vera tekinn í spontant viðtal í beinni í lok útsendingar).

(Mig minnir að útvarpsþættirnir tveir sem við sætu strákarnir í Þrumu* útvörpuðum í menntaskólaútvarpi frá VMA hafi verið í beinni útsendingu og upptökur hvergi komið nærri.)

Líkt og áður hefur verið ýjað að höfum við verið að láta vinna stutta kynningarmynd um stillingar.is. Ég tók upp bráðabirgða talsetningu hérna heima og í framhaldi af því var ákveðið að láta mig líka tala inn á endanlegu útgáfuna.

Ég fór því í hljóðver í lok síðustu viku til að taka upp þessa hálfu mínútu af tali eða svo.

Bjarni hljóðmaður orðaði það svo eftir að hafa heyrt mig lesa smá hljóðprufu að ég væri ekki mjög "kommersíal" og ég verð að viðurkenna að sjálfum þykir mér ekki bera mikið á leikhæfileikum í þessum þurra upplestri - en ég er kannski ekki dómbær á gripinn.

Afraksturinn ætti að opinberast á allra næstu dögum, hef grun um að boltinn liggi hjá mér að biðja um endanlega útgáfu sem við þurfum svo að þjappa eitthvað saman.

En Bjarni vann nú samt nokkuð kraftaverk í því að Prótúla það sem út úr túlanum á mér kom, þannig að þetta sándar alveg ágætlega. Vona ég.

*) Til að fyrirbyggja misskilning er rétt að taka fram að með orðanotkuninni "við sætu strákarnir í Þrumu" er ekki verið að gera upp á milli félaxmanna með nokkrum hætti, enda veit það alþjóð að strákarnir í Þrumu eru sætir.


< Fyrri færsla:
Nörd í bíó
Næsta færsla: >
Blogg á prenti
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry