Blogg á prenti

Um helgina barst mér fyrirspurn um það hvort ég gæfi leyfi fyrir því að dagbókarfærsla héðan birtist í sérlegri útgáfu vel þekktrar samtímabókar. Nú hef ég stunið upp stafrænu jáyrði og því stefnir í að brot af thorarinn.com birtist á prenti.

Nánar tiltekið er um að ræða færslu frá 23. maí með nokkrum vangaveltum mínum eftir að hafa lesið Draumaland Andra Snæs.

Mér skilst að gefa eigi út nýja útgáfu af Draumalandinu með viðbótarefni þar sem meðal annars verði molar úr bloggi og netskrifum í tengslum við bókina.

Ég féllst á þetta með því skilyrði að ég yrði rétt feðraður, enda var ég í póstinum sem barst frá Eddu nefndur Þórarinn Þórarinsson og titlaður tölvufræðingur.

Það verður fróðlegt að sjá hvort þetta raus mitt skili sér á prent og þá undir hvaða nafni það birtist.

En þetta er klárlega skref á leið til verðskuldaðrar heimsfrægðar thorarinn.com.

Nafnaveiðar spammara

Talandi um föðurnöfn...

Blessunarlega skilar sér lítið af spammi til mín (þótt nokkur hundruð skeyti lendi í ruslsíunni í hverri viku). Ég nenni því sjaldnast að róta mikið í ruslinu, en tók þó eftir því um daginn að auk pósta senda á hið klassíska thorarinn hjá thorarinn.com eru nú farnir að birtast stöku póstar stílaðir á stefanssonthorarinn hjá thorarinn.com.

Þótt ég hafi reynt eftir megni að halda thorarinn(hjá) frá því að birtast neinsstaðar á textatæku formi þá þarf ekki mikla spekinga til að álykta sem svo að netfangið lén(hjá) lén.com hljóti að vera til. Sömuleiðis hef ég fengið stöku pósta á bráðabirgðanetföng sem búin hafa verið til (t.d. jemen(hjá), party(hjá), o.s.frv.).

Stefanssonthorarinn(hjá) hefur hins vegar aldrei verið til og því heldur aldrei verið birt. Annað hvort er því um að ræða sérlega gáfaða netkönguló, eða einhver mannshönd hefur komið nærri og reynt að púsla saman sennilegu netfangi. Merkilegt að nenna því helvíti.


< Fyrri færsla:
Minns í hljóðveri
Næsta færsla: >
Þráður millum tanna
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry