Þráður millum tanna

Eins klaufalega og það nú hljómar tókst mér á laugardagskvöldinu þegar ég var að stanga úr tönnunum á mér eftir að hafa grillað grísahnakka í frostinu að slíta þráðinn. Ekki nóg með það, heldur báru tilraunir til að ná afslitrinu úr tanngarðinum ekki annan ávöxt en að slíta þráðinn sem út undan tannbilinu stóð, þar til ég sat uppi með örfáa millimetra kyrfilega kíttaða niður á milli tveggja jaxla (neðarlega hægra megin fyrir sérlega áhugasama).

Kíttunin var þvílík að engin leið var að reyna að losa um stúfinn með öðrum tannþræði og engir tannstönglar til á heimilinu. Ekki dugði heldur til hið gamla kúrekabragð að tálga til eldspýtur, svo ég sá mér ekki annað fært en að stela bílnum af Xöndru og halda út í nóttina í leit að líkn í tannstönglamynd.

Í 10-11 á Hjarðarhaga var ekki annað að fá en matartannstöngla og eftir að hafa keypt einn pakka af flötum matartannstönglum (750 stykki) og opnað úti í bíl kom fljótlega í ljós að þeir voru alls óhæfir til verksins.

Sama úrval (eða skortur þar á) reyndist í 10-11 í Héðinshúsinu og því brunaði ég eftir Sæbrautinni í 11-11. Þar fann ég lox plasttannstöngla (ca. 100 stykki) og þóttist þar hafa himinn höndum tekið.

Þeir reyndust þegar heim var komið of deigir til verksins og því sá ég ekki annað fært en að lofa sjálfum mér að hafa samband við tannlækni strax á mánudagsmorgni og dópa mig á bjór og pillum til að láta seyðing í tannbilunum ekki trufla mig í því að sofna svefni hinna tannþráðarþræddu.

Á sunnudagseftirmiðdegi var ég svo staddur í systkinahúsum á Fálkagötunni og fann þar fyrirheitna landið í líki tvíbeittra trétannstöngla.

Með því að geifla mig framan í spegla í nokkrum sveitarfélögum, beitandi tannstönglum líkt og járnkarli (eða trékarli nánar tiltekið) tóxt mér í áföngum að sarga þráðinn upp í plasttrosn sem hægt var að plokka burt með flísatöngum.

Lox var svo komið að mér tókst að krækja upp síðustu leyfunum með tannþræði og gladdist ógurlega.

Því get ég nú með góðri samvisku frestað því að fara til tannsa í nokkur ár enn...


< Fyrri færsla:
Blogg á prenti
Næsta færsla: >
Svið á stígandi
 


Athugasemdir (2)

1.

Óskar Örn reit 27. nóvember 2006:

Þessi ekkert minna en yndislega færsla minnir á dýrðardaga thorarinn.com þegar þú varst í Danmörku, félags(og tilhuga-)lífið allt heldur dauflegra en hér og því stundum fátt annað við tímann að gera en að blogga um...tja, til dæmis fastann tannþráð!! Dásamlegt! Ég er með tárin í augunum :-)
Skil samt ekki hvernig þú gast grillað grísahnakka í frostinu!? Venjulega þarf ég eitthvað um 200° heitt umhverfi í slíkt, t.d. ofn nú eða útigrill.....

2.

Þórarinn sjálfur reit 27. nóvember 2006:

Ég þakka hlý orð í minn garð, en millum línanna þykist ég lesa að þú gerir þér ekki grein fyrir þeim sálarkvölum og -angist sem svona aðskotaþráðum fylgir. Ég vona hins vegar að enginn lesenda minna þurfir ekki að ganga í gegnum upplifun af þessum toga, heldur geti nýtt sér fróðleik þessarar færslu til að tryggja að alltaf séu til trétannstönglar og flísatöng á heimilinu ef í harðbakkann slær (og tönn á festir).

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry