Eitthvað í ólagi

Aðvörun: Eftirfarandi færsla er mjög tæknilegs eðlis og getur reynst varasöm viðkvæmum sálum.

Eftir að hafa klórað mér í kollinum yfir grunsamlega fáum mældum heimsóknum undanfarna daga er ég núna búinn að kíkja aðeins á umferðartölur unnar upp úr server-loggunum. Niðurstaðan er sú að það er eitthvað bilað hjá mér.

Að minnsta kosti hefur heimsóknum ekkert fækkað undanfarna viku og leitarvélar virðast alveg jafn iðnar við heimsóknarkolann eins og áður.

Það hlýtur því að vera eitthvað við það hvernig ég er að skrá heimsóknir sem veldur vanda. Helst dettur mér í hug að Mínar Stillingar takkinn sé að stríða mér, enda sýnist mér að skráðar heimsóknir hafi súnkað niður um líkt leyti og hann birtist. Ég á samt erfitt með að sjá hvernig eða hvers vegna það ætti að gerast.

Sérstaklega þar sem annað er server-megin og hitt client-megin. Þarf að skoða betur...

Einhverntíman í fyrndinni lenti ég í því að geta ekki skráð fleiri færslur í gagnagrunn, þar sem lykilsvæði leyfði ekki númer nema upp í 127, það er hins vegar varla neitt í þeim dúr sem er að gerast núna. Færslur eru enn að detta inn (215.034 við síðustu talningu), en gera það grunsamlega hægt.

En þetta verður þá bara hvatning til að taka til í heimsóknarýningum mínum eins og hefur lengi staðið til.

Vonandi finn ég tíma í það fyrir vorið.


< Fyrri færsla:
Flatt á aðsókninni
Næsta færsla: >
Tilraunaeldhús: Fylltar pestópaprikur
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry