Tilraunaeldhús: Fylltar pestópaprikur
29. nóvember 2006 | 0 aths.
Ég hef einhverntímann áður boðið gestum upp á fylltar paprikur sem forrétt, en í gærkvöldi prófaði ég alveg nýja útfærslu - án uppskriftar - sem aðalrétt og það heppnaðist bara helvíti vel. Þótt ég segi sjálfur frá.
Uppskriftin er nokkurn vegin eftirfarandi:
Fylltar pestópaprikur
Hráefni:
- 3 paprikur í stærri kantinum (eða 4 litlar).
- 200-250 grömm skinkukurl.
- Lúka af sveppum.
- Hálfur poki af gratínosti.
- Grænt pestó.
Aðferð:
Paprikurnar eru skornar í tvennt, hreinsaðar og raðað í eldfast mót.
Sveppirnir eru brytjaðir smátt og hrært saman við skinkuna og gratínostinn. Bragðbætt með ca. 4-5 teskeiðum af pestó (eftir smekk).
Paprikurnar fylltar með skinkuostamaukinu. Ef vill má setja auka ost efst (t.d. eina sneið á hverja papriku).
Bakað í ofni við 200 gráður í ca. 20 mínútur (eða þar til osturinn er hæfilega bakaður).
Athugasemdir:
Pestóið var algerlega mín hugdetta, en það reyndist smellpassa inn í þessa samsetningu.
Ég notaði rauðar og appelsínugular paprikur (held að grænar séu heldur rammar). Ég ákvað að bera þetta fram með soðnum hrísgrjónum og þannig var þetta fín máltíð fyrir tvo. Einnig mætti huxa sér gott brauð eða kannski pasta.
Verst að nú er komin á mig pressa að galdra reglulega fram eitthvað spennandi. Ég neyðist líklega til að fara að fletta upp í einhverjum af matreiðslubókunum mínum...
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry