Nýja uppáhaldsverslunin mín

Ég held ég fari rétt með að systir mín blessunin hafi sagt eitthvað á þá leið að það að sjá hvernig stillt væri upp, hlið við hlið, smurolíudunkum og niðursoðnum tómötum í hinni merku verslun Júróprís hefði jákvæð áhrif á sálartetrið. Mælti hún því með heimsóknum þangað hálfsárslega hið minnsta.

Á laugardaginn síðasta, eftir að hafa sannreynt að hægt er að koma a.m.k. þremur vörubrettum af staðlaðri ISO stærð í Toyota Corolla (þ.e. án vara) renndi ég við í Júróprís af rælni og þótti mikið til koma.

Þetta var í fyrsta sinn sem ég steig fæti mínum þangað inn og þótti mér í frásögur færandi. Ekki sá ég nú smurolíudunkana, en held flestallt annað.

Þar á meðal plastskálar með loki (eins og mig vantar) sem voru svo yfirgengilega ljótar á litinn að ég gat ekki huxað mér að kaupa þær.

Verkfæradeildin er svo kapítuli út af fyrir sig. Það munaði engu að ég hefði skellt mér á bandsög á gríðarlega hagstæðu verði, en svo rifjaðist upp fyrir mér tvennt:

  1. A.m.k. 33,3% þeirra smíðakennara sem ég hafði í grunnskóla höfðu misst fingur í bandsög. Þetta eru skaðræðisgripir.
  2. Ég hefði ekkert við hana að gera og ætti ekki einu sinni spýtubút til að saga.

Ég fór því verkfæralaus út, en keypti servíettur og kerti.

Á útleið fann ég fyrir þorsta og varð litið á goskælinn. Var samt ekki í stuði fyrir kók og svipaðist því betur um. Varð þá fyrir sjónum mér Faxe Kondi - og það í töluverðu magni. Gladdist mitt litla hjarta mjög við það, enda ekki séð þann eðla drykk síðan ég fluttist aftur hingað heim á klakann.

Það var meira að segja tilboð í gangi: Kassi með 24 dósum á 1656 krónur. Eitthvað átti ég nú erfitt með að hugarreikna hversu mikið ég myndi spara á slíkum kaupum og laumaðist því til að draga fram vasareikninn í símanum. 24 x 69 reyndist vera 1656 krónur. Tilboðið fólst því líklega í því að fá kassann sjálfan ókeypis...

Lét því 4 dósir nægja.

En þar sem Júróprís selur Faxe Kondi er það hér með orðin uppáhaldsverslunin mín. A.m.k. þar til annað kemur í ljós.

Spurning hvort ég reyni ekki bara að kaupa allar jólagjafirnar þar í næstu ferð?


< Fyrri færsla:
Tilraunaeldhús: Fylltar pestópaprikur
Næsta færsla: >
Í gott skap
 


Athugasemdir (1)

1.

Margrét reit 29. nóvember 2006:

Vúhú taktu mig með næst! Og ef þú kaupir jólagjafirnar í Europris, ekki kaupa garðálf handa mér því ég var búin að kaupa þannig handa þér...

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry