Með bilaða efnishyggju
04. desember 2006 | 1 aths.
Ég veit ekki hvort ég kemst upp með að kenna dvöl minni í danaveldi um, en mér sýnist hins vegar ýmislegt benda til að það vanti eitthvað upp á tilætlaða efnishyggni mína, sérstaklega núna í jólabrjálæðinu.
Ég hef átt erfitt með að svara spurningum um það hvað mig langi í í jólagjöf - enda finnst mér mig ekki vanta neitt.
Nema auðvitað vorldpís.
Eigi ég að nefna eitthvað verða það eftir töluverða umhugsun praktískir hlutir á borð við eldhúsáhöld eða handklæði.
Ég rölti niður Laugaveginn í dag á leið minni til æfingar í Þjóðleikhúskjallaranum og þrátt fyrir að hafa kíkt í glugga á leiðinni sá ég ekkert sem mér fannst ég hafa þörf fyrir, né langa sérstaklega í.
Þetta er auðvitað óverjandi í íslensku samfélagi. Hvað yrði um vesalings hagvöxtinn ef allir höguðu sér svona? Hvað þá um jólavertíðina? Og vesalings kaupmennina?
Til dæmis sé ég í jólablaði Fréttablaðsins að mér er ekki stætt á öðru en að fá mér 47 tommu LCD sjónvarp á kynningarverði til að geta horft á jólamessuna í.
Ég er kominn með svæsið samviskubit...
Athugasemdir (1)
1.
Jón H reit 06. desember 2006:
Já ég er sammála þér. Ég er svona líka. Eiginlega er ég með djúpt samviskubit. En það hjálpar móralnum að við teljum okkur þurfa að kaupa ísskáp þar sem Indesit afsláttarísskápurinn sem við keyptum þegar við "hjónin" hófum búskap er að deyja.
Jólaölið verður kalt og gott í ár sem sagt.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry