Plögg: Jólabónus Hugleix

Það er mér bæði ljúft og skylt að plögga jóladagskrá Hugleiks; Jólabónus. Þar mun ég troða upp í leikþættinum Bónusförin, sem er óðum að taka á sig mynd og stefnir í að verða alveg helv. fyndinn og skemmtilegur þáttur.

Gefum Hugleik sjálfum orðið:

Nú fer aðventan í hönd og þá er hefð fyrir því að Hugleikur bregði sér í jólafötin og skemmti sér og öðrum sem aldrei fyrr. Jóladagskrá Hugleiks heitir að þessu sinni Jólabónus og verður framin í Þjóðleikhúskjallaranum þriðjudaginn 5. og fimmtudaginn 7. desember klukkan 21.00.

Leikfélagið Hugleikur fékk á dögunum viðurkenningu á degi íslenskrar tungu fyrir nýsköpun í leikritun, útúrsnúning ýmiskonar á tungumálinu og allskyns meðferð á menningararfinum. Félagið sér því sóma sinn, sem aldrei fyrr, í að vinna af atorku að þessu öllu saman, nú á viðurkenndan hátt. Og sjaldan úr jafnmiklu að moða og einmitt þegar kemur að jólunum.

Að þessu sinni verða í boði fjórir einþáttungar eftir jafnmarga höfunda í leikstjórn jafnmargra félagsmanna en eru þeir leiknir af miklu fleirum. Einþáttungarnir sem í boði eru að þessu sinni eru:

  • Bónusförin eftir Þórunni Guðmundsdóttur í leikstjórn Sigurðar H. Pálssonar
  • Jólasveinar eru líka kynverur eftir Nínu B. Jónsdóttur í leikstjórn Sigríðar Láru Sigurjónsdóttur
  • Mikið fyrir börn eftir Þórunni Guðmundsdóttur, Hrefnu Friðriksdóttur, Þórunni Harðardóttur og Sævar Sigurgeirsson í leikstjórn Hrefnu Friðriksdóttur
  • Skurður eftir Sigurð H. Pálsson í leikstjórn Guðmundar Erlingssonar

Auk þess verður á boðstólnum Hugleikræn jólatónlist úr ýmsum áttum, m.a. í flutningi söngsveitarinnar Hjáróms og stórsveitarinnar Ljótu hálfvitanna. Ekki er síðan loku fyrir það skotið að eitthvað verði gripið í jólaföndur.

Aðgangur er ókeypis fyrir skuldlausa félagsmenn og handhafa áskriftarkorta. Almennt miðaverð er 1000 kr. Miðapantanir eru á hugleikur.is

Ég stefni a.m.k. á að fjölmenna í eigin persónu.

Bónusförin Kerrur

Æfingar á Bónusförinni standa yfir af miklum móð þessa dagana og var mikilvægt skref stigið í gær þegar ég fór með formanninum í Bónus á nesinu og sótti þangað tvær kerrur. Það var í fyrsta sinn sem ég reyndi að lyfta upp Bónuskerru og get vottað að þær eru mun þyngri en maður gerir sér grein fyrir.

Í kvöld er svo lykilæfing þar sem kerrutraffík, panflautum, hlaupum, pokakasti og árekstrum verður umferðarstýrt með styrkri hönd leikstjórans.

Þessi leikþáttur sem byrjaði sem einfaldur skets hefur tekið ótrúlegum breytingum í meðför leikhópsins, þó þannig að við höldum okkur við upphaflegan texta höfundarins (örlítið styttan).

En þetta verður hugljúf upplifun fyrir gesti í Þjóðleikhúskjallaranum og vonandi hægt að glotta út í annað (ef ekki bæði).

Sjáið mig þar eða sjáist sem ferningar.


< Fyrri færsla:
Í gott skap
Næsta færsla: >
Bilunin fundin: Ég
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry