Við rífandi undirtektir

Á þriðjudagskvöldinu þreytti ég frumraun mína á sviði í Þjóðleikhúsinu. Ég fór rétt með allar mínar replikkur, klikkaði ekki merkjanlega á innkomum og þrátt fyrir viðleitni missti ég búninginn ekki niður um mig. Leikurinn verður svo endurtekinn í síðasta sinn í kvöld.

Eins og áður hefur komið fram var þessi upptroðsla mín hluti af Jólabónus Hugleiks og eftir að hafa fylgst með prógramminu öllu get ég sannarlega mælt með því.

Þetta er mátuleg blanda af leikþáttum og tónlist - með hæfilega stuttum atriðum sem öll leggja áherslu á húmor í einni eða annarri mynd (og englasöng (misljúfum)).

Stönt-trommuleikur stórsveitar Ljótu Hálfvitanna er svo alheimsviðburður, hvorki meira né minna.

Ég held mér sé óhætt að mæla með þessu við alla með snefil af húmor (og ég held að börn komin á grunnskólaaldur muni líka hafa gaman af) (neðanmittishúmor er í lágmarki og blóðsúthellingar innan siðsemismarka).

Hins vegar eru hugleixkir línudansar á mörkum velsæmisins til staðar í jólarottum, kynímyndum jólasveina, ástríðum Grýlu til barna og jólaglöggi með óljósu innihaldi...

Aðeins þessi eina sýning eftir.


< Fyrri færsla:
Með bilaða efnishyggju
Næsta færsla: >
Stormur og steik
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry