Húsgögn fást gefins
13. desember 2006 | 4 aths.
Nú stendur lesendum thorarinn.com til boða einstakt tilboð: Nenni menn að sækja það fást ókeypis rúm og hillustæða með skrifborði. Nánar neðar.
Í gær þurfti ég að sinna smá forritunarverkefni og stússast í tónlistarmálum, auk þess sem ég skrúfaði nýkeypt skrifborð saman.
Á meðan stóð Alex sig eins og hetja við að skrúfa saman nöfnu sína. Er hvorttveggja komið í gagnið núna, en mér sýnist þó að ég ætti að skella eins og einni umferð af lakki á skrifborðsplötuna áður en langt um líður og hún fyllist af drasli.
En aftur að gjafahúsgögnunum.
Ég er sem sé með húsgögn sem ekki er lengur not fyrir og ég stefni á að fara með í nytjagám Sorpu á næstunni - nema einhver gefi sig fram og vilji hirða.
Um er að ræða 120x200 cm boxdýnurúm úr IKEA á fínum beykibogum. Ég er búinn að eiga það í nokkur ár, en það stendur alveg fyrir sínu. Með nýrri yfirdýnu (eða hreinsun á þeirri gömlu) yrði það næstum eins og nýtt.
Heitir þetta ekki að vera "tilvalið fyrir táninginn"?
Svo ætla ég að láta frá mér fermingarhillusamstæðuna(!) sem hefur reynst mér vel í mörg ár.
Þrátt fyrir leit tekst mér ekki að finna mynd af dýrðinni á stafrænu formi, þannig að lýsing verður að duga.
Þetta er sem sé IKEA hillustæða með svörtum málmbogum og beykiplötum. 180 cm á hæð og tvær einingar á breidd (170 cm samtals). Í annarri einingunni er lokaður skápur og út úr hinni stendur skrifborð sem er 80x160 cm - töluvert flæmi.
Það sér eitthvað smávægilega á þessu, en merkilega lítið miðað við aldur.
Nú gefast áhugasömum nokkrir dagar til að gefa sig fram, ella þarf að kaupa mublurnar á óendanlega mörgum prósentum hærra verði í Góða Hirðinum eftir að ég kem mér í að skutla þeim í Sorpu.
thorarinn hjá thorarinn.com
Athugasemdir (4)
1.
Óskar Örn reit 14. desember 2006:
Ætla ekki að bjóða í dýrðina, en er hins vegar sjálfur með hilluræfil sem ég þarf að koma á Sorpu en sem kemst ekki í Poloinn. Ef þú hefur aðgang að sendibíl þá væri ég til í að samnýta. Splæsi í pylsu! Kannski líka kók!
2.
Þórarinn sjálfur reit 15. desember 2006:
Því miður hef ég ekki aðgang að sendibíl, en hafði bara huxað mér að hringja í einhverja sendibílastöðina. Enda ekki nema steinsnar héðan og út í Sorpu...
3.
Óskar Örn reit 15. desember 2006:
Þá máttu bara eiga þig.....!
4.
Þórarinn sjálfur reit 29. desember 2006:
Hnuss!
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry