Horft til himins
22. desember 2006 | 0 aths.
Það fór um okkur dreifbýlispésana þegar veðurspár helgarinnar tóku að skýrast við upphaf vikunnar; ekkert nema stormur eftir storm.
Það hefði verið hugsanlegt að reyna að færa flugið til (ég á bókað flug í kvöld kl. 19) en það er hæpið að gera það á grundvelli langtímaspánna - enda erfitt að vita hvort skil munu ganga yfir landið hálfum sólarhring fyrr eða seinna.
Allt flug lá niðri eftir hádegið í gær og í morgun sýnist mér að 3 vélar hafi farið til Egilsstaða fyrir klukkan 9. Eftir að vél fór í loftið 11:40 (sem var þá líklega það sem hefði átt að vera morgunvélin) hefur hins vegar ekkert verið flogið.
Samkvæmt yfirliti yfir komur og brottfarir (sem ég refresha núna reglulega) ætti þó hádegisvélin að fara í loftið núna klukkan 16 (fyrir kortéri) og vélarnar tvær sem eru á undan minni eru sömuleiðis skráðar "í athugun" klukkan 16.
En miðað við að það virðist vera að byrja að hvessa (eins og spáð var) er ég ekkert sérlega bjartsýnn á að komast í kvöld.
Held að fyrramálið sé líklegra.
Ferðalangur um nótt
En það er ekki bara innanlandsflugið sem fer úr skorðum þegar blæs.
Albert frændi birtist hér rétt fyrir klukkan 6 í nótt og voru þá liðnir um 12 tímar frá því hann mætti á Heathrow.
Þá kom leti mín sér vel, því ég er enn ekki búinn að losa mig við aukarúmið og gat því boðið honum upp á uppbúið rúm í vinnuherberginu.
Hann á svo bókað flug á morgun (og Sigmar bróðir líka) en hætt við að þau flug verði eitthvað sein á ferðinni líka.
Sú hugmynd kom meira að segja upp fyrr í vikunni að við systkin myndum bara taka bílaleigubíl og aka austur (enda var þá spáð 5-10 stiga hita um allt land). Hitastigið er hins vegar aðeins lægra en spáð var og mér sýnist vera hálka víða um land, þannig að það er engin ástæða til að taka sénsa með það.
Það er bara að sjá hvort ekki gefist færi á flugi þegar slotar aðeins.
Í versta falli verður maður í höfuðborginni um jólin. Ég þykist vita að a.m.k. ein ung kona myndi gráta það þurrum tárum ef svo færi...
Que sera, sera.
Uppfært: Nú er hádegisvélin farin í loftið (16:18) og miðdegisvélin áætluð klukkan 19:05 (og fari hún í loftið er enn eftir ein vél á undan minni). Held þetta sé þá útkljáð mál.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry