Ársskýrsla thorarinn.com 2006

Undanfarin ár hefur skapast sú hefð að gefa út ársskýrslu thorarinn.com, samanber:

Ég er ekki einn um þetta, og úr kunningjahópnum má benda á misítarlegar ársskýrslur fyrir 2006:

En áfram með smjörið...

Tímaannáll

Þegar árið 2006 gekk í garð stóð ég uppi á hól í Hafnarfirði og skálaði í malti (í boði litla bróður).

Skömmu síðar hélt ég aftur til danaveldis til að taka prófin og hefja vinnu við lokaverkefnið í mastersnáminu. Þar var rennt nokkuð blint í sjóinn með samstarfsfélaga, hana Emilie blessunina, enda höfðum við gert meira af því að sötra saman bjór heldur en vinna saman. Það fór svo að það skiptust á skin og skúrir í samstarfinu og vinnuferlinu öllu, en allt hafðist þetta að lokum og við vorum tilbúin með lokaverkefnið útprentað (en óinnbundið) 20 tímum fyrir lokafrest.

En nú er ég aðeins að fara fram úr sjálfum mér...

Janúarprófin lifði ég af og gott betur með meðaleinkunnina 10,5.

Í febrúar hófumst við formlega handa við lokaverkefnið og ég fékk einhverja smá flensu.

Í mars fór ég til Svíþjóðar og studdi föður minn og frændur í Vasagöngunni alræmdu. Mjög skemmtilegt.

Í apríl gerði ég nördalegt aprílgabb og hélt upp á það að vera orðinn breiðskífa með smá afmælisteiti í kjallara kollegísins. Líka mjög skemmtilegt.

Vorið var svo kalt og heldur lítt spennandi, en ég kíkti í smá skrepp heim á klakann í lok apríl. Þar gerðist sitthvað sem verður betur rætt síðar í þessum pistli.

Í maí fór að gæta sólar og ég keypti mér bæði kubbsett og ukulele. Föðuramma mín féll frá og ég skaust heim í langa helgi til að vera viðstaddur jarðarförina. Ég fór sömuleiðis í fyrsta og eina danska atvinnuviðtalið og líkur tóku að aukast til að ég kæmi heim að námi loknu.

Í júní kom sumarið og hitabylgja hófst. Við Emilie sýndum gríðarlega vinnuhörku og eljusemi, þótt afköst væru ekki alltaf mikil - en þeim mun meira um stefnukrísur. Félagslífinu var einkum haldið uppi með því að hitta íslínga í borginni, oft með einnota grill innan seilingar.

Fyrstu helgi júlí fór ég á Hróarskeldu með Huld, Sigga og Ásgerði. Eðal skemmtun.

Veðrið í júlí hélt sínu striki, sól og hitabylgja næstum upp á hvern dag. Ekki sérlega heppilegt þegar unnið er að mastersverkefni, hvað þá þegar gerðar eru tilraunir í sjóðheitum húsakynnum.

Í júlílok fór ég svo enn og aftur í stutta ferð til Íslands og fór meðal annars í þrjú atvinnuviðtöl og var boðin öll þrjú störfin. Eftir töluverðar vangaveltur varð úr að ákveða að taka tilboði Hugsmiðjunnar.

Blessunarlega fór svo að rigna í ágúst, þannig að inniveran varð bærilegri og við Emilie náðum að klára lokaverkefnið á tilskildum tíma eftir langan lokasprett.

Í septemberbyrjun fór ég svo til Parísar og varði þar fjórum dögum með Alex. Verkefnið var svo varið 15. september og við fengum 10 á danska kvarðanum (ca. 9 á þeim íslenska). Albert frændi kíkti í heimsókn til Köben og mánaðarmótunum varði ég svo í London með pabba og Sigmari að endurgjalda heimsóknina.

Október hófst á niðurpökkun og kaupum á allra handa munaði og nauðsynjum. Svo flutti ég heim og byrjaði að vinna.

Í nóvemberbyrjun kom svo búslóðin í nokkrum áföngum og ég gat loks hafist handa við að flytja almennilega inn í eigins íbúð og drepa flugur...

Í desember þreytti ég frumraun mína á sviði í Þjóðleikhúsinu og hélt hið árlega jólasukk heilagt í sveitasælunni.

Við árslok 2006 stóð ég svo við Landakotskirkju og horfði á flugeldabrjálæðið.

Alexandra

Tilvitnun í ársskýrslu 2004:

Ég er einhleypur, án netfanga en komst þó að því í jólafríinu að á íslenska farsímakortinu mínu er símanúmer sem ég hef aldrei hringt í, en fékk það á sínum tíma hjá sjálfskipuðum hjúskaparmiðlara mínum gegn því að hringja ekki án tilskilins leyfis. Veit ekki hvort ég á nokkurntíman eftir að hringja í það - spyr miðlarann við tækifæri.

Á árinu 2006 bar svo við á degi heilags Patreks að ég var kynntur fyrir eiganda símanúmersins sem ég hafði upphaflega vistað í símanum sumarið 2004. Í heimskreppi mínum í apríl stungum við svo aðeins betur saman nefjum og endaði förin með þeim ósköpum að ég var ekki lengur fyllilega einhleypur.

Eftir það hittumst við stuttlega þegar ég tyllti tá á klakann og gerðum svo góða för til Parísar. Nú í lok árs er staðan eiginlega sú að við erum svo gott sem í sambúð á tveimur stöðum, þ.e. verjum kvöldum og nóttum ýmist heima hjá mér eða henni.

Er óhætt að fullyrða að ég hef stöku sinnum hringt í áðurnefnt númer á nýliðnu ári.

Það verður svo eitt af verkefnum ársins 2007 að finna út úr því hvert þetta samkrull okkar stefnir.

Lykiltölur úr dagbók

Eitthvað er ég farinn að ryðga í SQL skipanaskrifum, en með smá fikti sýnist mér ég geta fullyrt að á árinu hafi verið færðar til dagbókar 280 færslur. Í þeim er að finna rúmlega 940 þúsund slög í um 173 þúsund orðum.

Þar með eru dagbókarfærslur í heild komnar yfir 860 og slögin farin að nálgast 2,5 milljónir í 440 þúsund orðum.

Það er af stærðargráðunni 1100 A4 blaðsíður miðað við 2100 slög á síðu...

Ætli maður þurfi ekki að fara að kaupa sér pappírskassa og laumast til að fara að prenta út pappírskópíur af þessu öllu saman...

Rekstraryfirlit samstæðunnar

Eigin fé samstæðunnar rýrnaði enn á árinu. Tekjur voru takmarkaðar við stök vefverkefni framan af ári og var einkaneysla að mestu fjármögnuð með lántökum og sölu á hluta af hlutabréfaeign samstæðunnar.

Á síðasta ársfjórðungi var tekjustreymi þó nokkurn vegin í jafnvægi, þrátt fyrir nokkurn kostnað við heimflutning. Áætlanir gera ráð fyrir jákvæðum breytingum á eiginfjárstöðu á árinu 2007.

Fyrirkomulag húsnæðismála og annarra rekstrarþátta verður hugsanlega tekið til endurskoðunar í byrjun árs 2007 og alls óljóst hver niðurstaða þess verður.

Það eru hins vegar klár sóknarfæri á nýju ári og má leiða að því líkum að thorarinn.com þróist og þroskist á því ári sem öðrum.

That´s about it...


< Fyrri færsla:
Fædd í leigubíl
Næsta færsla: >
Ókeypis í strætó!
 


Athugasemdir (1)

1.

Linda reit 10. janúar 2007:

Greinilega verið viðburðarríkt ár þetta 2006,gaman að sjá að allt gengur þér í haginn. Vona að 2007 verði gæfuríkt og gleðilegt :)

Með sandalakveðjum frá Kiwilandi,
Linda.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry