Nýju Apple græjurnar
14. janúar 2007 | 1 aths.
Eftir kynningu Job í síðustu viku eru flestir að velta fyrir sér iPhone; hvað hann komi til með að kosta og hvenær hann komi til Evrópu.
Græjan er náttúrulega hrikalega svöl úr fjarlægð, en ein af góðum vangaveltum sem ég hef séð er spurningin hvernig það komi til með að reynast að skrifa á hann textaskilaboð án þess að hafa það "feedback" sem upphleyptir takkar gefa.
Það er líka fróðlegt að lesa hversu löng fæðingin hefur verið og hversu mikið Apple hefur þurft að hafa fyrir því að halda þessu öllu saman leyndu.
Annað sem hefur líka vakið athygli er að þótt síminn sé kynntur núna verður hann ekki fáanlegur í Bandaríkjunum fyrr en í júní. Venjulega er Apple ekki að kynna græjur nema þær séu tilbúnar daginn eftir...
Ástæðan mun vera sú að þeir þurfa samþykki frá amerísku póst- og fjarskiptastofninni og þar með væri leyndin úti, þannig að þeir velja að kynna hann sjálfir núna.
Gleymdu græjurnar
Jobs kynnti líka nýtt þráðlaust AirPort og nýja Apple-TV (sem var tísað á síðasta ári sem iTV).
Kvöldið fyrir kynninguna varð Alex að orði þegar ég var að brasa við að tengja fartölvuna við sjónvarpið (til að horfa á þátt af Studio 60 fenginn með vafasömum hætti) (þættir sem fá mín meðmæli) að það væri nú munur ef hægt væri að streyma myndefni úr tölvunni eins og ég er að gera með hljóð núna. Ég svaraði því til að sú græja yrði kynnt í fyrramálið.
Hins vegar sýnist mér að Apple-TV sé ekki endilega að uppfylla mínar þarfir. Það er t.d. gefið upp sem skilyrði að hafa iTunes, sem bendir til þess að ekki verði hægt að streyma efni nema það sé til í iTunes (a.m.k. þar til einhver hakkar spilarann).
Önnur spurning sem er ósvarað er hvort aðeins verði hægt að horfa á efni keypt gegnum iTunes (sem þar með myndi gera græjuna gangslausa hér á Íslandi).
Í ofanálag virðist sem græjan geri kröfu um breiðtjaldssjónvarp (sem ég á ekki) - krafa sem mér þykir skrýtin.
Þannig að ætli maður bíði ekki eftir næstu útgáfu eða þarnæstu. Mig langar a.m.k. í græju með smá hörðum disk til búfferingar sem ég gæti notað til að horfa á efni geymt á tölvu tengdri þráðlausa netinu og spilað í sjónvarpinu.
Sem minnir mig á pistil sem ég er búinn að ætla að skrifa lengi (og ekki enn komið í verk) um ástæður þess að ég er ekki enn kominn með flatskermssjónvarp...
Kannski það fari að gerast hvað úr hverju...
Athugasemdir (1)
1.
Már reit 17. janúar 2007:
Bah, fáðu þér vídeóspilaraflakkara (með fjarstýringu), dömpaðu draslinu inn á hann yfir ethernet, usb eða firewire, og geymdu hann annars sítengdan við sjónvarpið.
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry