Hamhleypa til innkaupa

Undanfarna viku hef ég aðeins verið að svipast um eftir jakkafötum, enda hef ég sannfærst um það upp á síðkastið að jakkafötin mín eru í það stærsta.

Ég þarf hins vegar "long" snið, og slík jakkaföt eru ekki á hverju strái, ekki einu sinni innan viðurkenndra herrafataverslana.

En líkt og fram kom í inngangstextanum þá er ég að öllu jöfnu ekki sérlega gefinn fyrir verslanaþvæling. Hins vegar kemur fyrir, sérstaklega ef ég veit að mig vantar eitthvað og finn það, að ég kemst í gír og kaupi þá margt og mikið.

Sem hluta af þessum jakkafataskoðunum fann ég mig til dæmis í Smáralind í gær og eftir að hafa farið sneypuför um herrafataverslanir lá leið okkar í Hagkaup að versla í matinn. Það endaði með því að ég keypti handklæði, salatskál, myndaramma og laxaskurðarbretti (með hníf!) auk matar.

Allt eitthvað sem mig bráðvantaði, að sjálfsögðu.

Í dag kíktum við svo á Herra-lagerinn í Skeifunni, verslun sem ég vissi ekki að væri til fyrr en við rákumst á hana í gær (í leit að Herrafataverslun Birgis) (vonlaust þetta gatna/númerakerfi í Skeifunni) um það leyti sem báðum var skellt í lás.

Við kíktum aftur í dag og það endaði með því að ég keypti mér jakkaföt, útivistarjakka, trefil og tvær peysur, allt á 80% afslætti. Pakka sem hefði slefað í rétt tæp 100 þúsund miðað við upphaflegt verð.

Alex greyið vissi varla hvaðan á sig stóð veðrið...

Allt held ég að þetta séu hlutir sem ég á eftir að geta notað - sem er ekki alltaf raunin þegar útsölubrímann bráir af manni (hóst).

En það sem var kannski merkilegast er að þarna var langbesta úrvalið af jakkafötum í long stærðum sem ég hef séð í Reykjavík - og aldrei að vita nema ég kíki þangað oftar.

(Enda lít ég á það sem stóran gæðastimpil að rekast á Ödda Kristins þarna, en að frátöldu ljóta prjónabindinu sem hann keypti í Portúgal er hann smekkmaður á fatnað.)

(Sem aftur rifjar upp samviskubit mitt yfir þeim vinum og kunningjum sem ég hef enn ekki heimsótt eftir að ég sneri heim á klakann.)


< Fyrri færsla:
Hafa strætisvagnar hamskipti?
Næsta færsla: >
Götusalerni eru mannréttindamál
 


Athugasemdir (2)

1.

Örn Kristinsson reit 19. janúar 2007:

Glæsilegur árangur í kaupæði. Get vitnað um að að þú varst algert æði í Bellini fötunum sem þú varst að máta. Sárnar reyndar pínu þetta komment með prjónabindið. Kansi langar þig bara að fá það lánað?

2.

Siva reit 24. janúar 2007:

Já veistu Jói er dálítið svona líka, þ.e. vantar gallabuxur og kemur út með fangið fullt af fötum, alveg stórskemmtilegt að fara með honum í verslunarleiðangra því úr því verða almennileg kaup ! Er alveg handviss um að Alex venst því fljótt og vel. En hvað er með þetta bindi? Öddi notarðu það enn?

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry