Jesú bróðir besti

Í einu af ótal innleggjum í veflægri umræðu um Byrgisþátt Katsljóss var skrifari á því að þetta hlyti að vera lygi "því Guðmundur væri sannkristinn". En hvað er sannkristni?

Ég hef löngum haft lúmskt gaman af því að lesa gagnrýni á ofríki kaþólsku kirkjunnar í gegnum tíðina og það hvernig pólitík hefur ráðið því hvaða mynd er á biblíunni og hvað af "orðum guðs" hefur hlotið náð og hvað ekki.

Það var hluti þess sem mér þótti áhugavert við DaVinci lykilinn, ádeilan á kvennakúgun kaþólsku kirkjunnar í gegnum tíðina.

Núna er ég að byrja að lesa bókina The Second Messiah, sem ég fékk lánaða hjá Alex.

Hún er söguleg úttekt á tengslum frímúrarahreyfingarinnar við Templarariddarana (og það sem af er bendir margt til þess að Dan Brown hafi lesið hana í sínum undirbúningi). Í fyrsta kaflanum er fjallað um áratugina eftir lát Jesú og samkvæmt henni var það bróðir Jesú sem tók við söfnuðinum eftir fráfall hans. (James með enskum rithætti.)

Á þeim tíma var lítið "kristið" við jerúsalemsku kirkjuna, en trúarbrögð gyðinganna tóku að dreifast um rómarríkið. Í framhaldi af því kom Páll postuli til sögunnar, sem útlendingur sem virðist hafa valið og hafnað það sem honum hentaði til að byggja um sig sértrúarsöfnuð.

Samkvæmt höfundum var það til dæmis málvenja í þessum frumsöfnuði að þeir skírðu væru "lifandi" en fólk utan hans "látið". Frásagnir af því að Jesú hafi vakið fólk frá dauðum snúist því um að hann hafi fengið það með sér í söfnuðinn, og orðatiltækið að breyta vatni í vín mun hafa verið notað um það þegar almúgafólk reis til metorða.

Eftir tilburði Ísraela til uppreisna á áratugunum eftir Jesú bældu Rómverjar andspyrnu þeirra niður af mikilli hörku og þegar Páll hófst handa við að skrifa testamentið voru allir þeir sem höfðu persónuleg kynni af Jesú látnir og söfnuður hans að mestu horfinn.

Páll valdi því þá túlkun sem hentaði honum og skurðgoðadýrkuninni sem fór vel í Rómverja (og enn einkennir kaþólsku kirkjuna). Okkar daga kirkja sé því byggð á rómverskum sértrúarsöfnuði, en ekki komin beint frá Jesú frá Nasaret.

Bókin heldur svo áfram að rekja það að Templarariddararnir hafi grafið upp frumgögn Jesú og lærisveinanna undan musterinu í Jerúsalem og þau séu að öllum líkindum geymd undir musterinu í Roslyn (svipað og í DaVinci lykli Brown).

Fróðlegt...


< Fyrri færsla:
Flass-smiðurinn ógurlegi
Næsta færsla: >
Bara vondur klæðnaður
 


Athugasemdir (2)

1.

Óskar Örn reit 05. febrúar 2007:

Éj hef alltaf gaman af svona spekúleringum, enda lengi átt erfitt með að koma auga á tengslin milli þeirra lýsinga (munnælasagna/þjóðsagna/lygasagna) sem maður les af Trésmiðnum sjálfum, hver eða hverjir sem hann nú var og kirkjustofnanna dagsins í dag. Þá kannski helst þeirra kaþólsku en okkar ekki síður.
Samt afþakka ég nú aldri boð í gott brullaup! Athafnirnar sjálfar eru líka orðnar svo þægilega stuttar og maður þegir bara í faðirvorinu.....!
Að öðru: Við hjúin vorum að festa okkur miða á Kristin Hersh og Blonde Redhead á NASA 5.apríl. Fínt indírokk og natürlich allt til á emusic. Þið eruð nú dálitlar svona indí-spírur. Með?

2.

Þórarinn sjálfur reit 05. febrúar 2007:

Með. Fjárfest í tveim miðum.

Sjálfur á ég ekki í neinum vandræðum með faðirvorið, en það væri frekar að trúarjátningin gæti staðið örlítið í mér ("heilaga almenna kirkju")...

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry