Allir í mat

Helgin hófst á smá Hugsmiðjusprelli. Þar er verið að blása til heilsuátaks og því var hrundið úr vör með Bootcamp, þorramat og sushi.

Við hittumst (flestallir) í Laugardalslauginni um sexleytið og fórum svo út í myrkrið og rigninguna með Arnaldi þjálfara. Þar hlupum við svo, klifruðum upp á brýr, drösluðum hverjum öðrum upp og niður brekkur og stóðum langtímum saman á fjórum fótum. Keyrslan og kappið var töluvert og þótt ég sé langur eru takmörk fyrir því hversu langt bil getur verið á milli tveggja manna sem eru að hlaupa með mig í fanginu. Varð þó engum meint af því falli, en við töpuðum boðhlaupinu.

Handleggjastyrkur hefur aldrei verið mitt helsta einkenni og brúarstökkin vöfðust heldur fyrir mér, þótt það bjargaðist með hjálp góðra manna. Hlaupaþrekið hefur verið betra, en ég slapp þó við uppsölur (sem létu á sér kræla).

Grunsamlegt þótti okkur þó að það vantaði alla grafíkdeildina...

Eftir pottferð var haldið í þorramat, sushi og bjór hjá Þórarni framkvæmdastjóra. Prýðisgott.

Mamma og Vilborg á laugardegi

Mútter var svo í bænum til að hitta fermingarsystkini sín á þorrablóti Bolvíkingafélagsins á laugardagskvöldinu. Það kom því ekkert annað til greina en að bjóða henni í síðbúinn hádegismat á laugardeginum. Þangað komu líka systkini mín og Vilborg.

Veit ég ekki annað en allir hafi verið sáttir við þá heimsókn, þótt Vilborg væri ekki dugleg að borða súpuna sem Alex eldaði.

Um kvöldið fórum við Alex svo í Hafnarfjörðin að passa ungfrú V meðan foreldrar hennar brugðu sér á skrall. Sú stutta byrjaði á að prófa þrautseigju okkar með drjúgri grátsyrpu, en þegar hún gafst upp á þeim stælum varð öllum vel til vina.

Tengdó á sunnudegi

Eftir að hafa sofið vel út á sunnudeginum fórum við í leiðangur að kaupa sunnudagslærið og með því. Litum svo inn á Fálkagötunni að heilsa upp á letistemmninguna þar og kveðja múttu.

Síðan var rumpað upp eins og einum kvöldverði í snarhasti með grilluðu rauðvínslegnu lambalæri (og öllu tilheyrandi) og nýbakaðri súkkulaðiköku að fransk-Alexískum hætti.

Gestirnir voru mamma Alex og systir, auk kærasta beggja. (Þ.e. sitthvor kærastinn).

Aftur held ég að allir gestir hafi snúið sáttir heim.

Strengirnir eftir föstudagsátökin hafa annars reynst minni en ég átti von á. Að frátalinni smá núningsskrámu á bringunni og vart greinanlegum marblettum á hnjánum sýnist mér ég varla sjá merkjanlega á mér.


< Fyrri færsla:
Bara vondur klæðnaður
Næsta færsla: >
Alvarleg geðræn vandamál?
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry