Nóg að gera

Mig minnir að það hafi verið í baksíðupistli Fréttablaðsins sem Sigurjón Kjartansson velti vöngum yfir því að meðan Norðurlandabúar spjölluðu um frístundir þegar þeir hittust á förnum vegi, spyrðu Íslendingar hvort ekki væri örugglega nóg að gera.

Það er örugglega nóg að gera hjá mér þessa dagana.

Í vinnunni erum við auk hins daglega stúss að undirbúa þátttöku á sýningunni Tækni og vit í byrjun marsmánaðar, ég er að berja saman kynningartexta um okkur og helstu vörur fyrir einblöðunga. Í gær var "Hugsmiðjudagur", sem þýddi að unnið var fram yfir kvöldmat að ýmsum innri verkefnum fyrirtækisins, þar sem ég sem aðalbeturviti viðskiptaþróunar þvældist manna á milli og skipti mér af þeirra vinnu án þess þó að gera neitt af viti sjálfur.

Í frílansinu er ég svo búinn að taka að mér tvö minni vefverkefni, auk þess að vera búinn að lofa mér í að liðsinna við kynningarmál vegna næsta leikrits Hugleiks sem frumsýnt verður í mars.

Ég mun eflaust æfa lofrullur þess leikrits hér, en ég get sagt frá því að ég sá bróðurpartinn af æfingu í gærkvöldi (eftir vinnu) og skellti nokkrum sinnum upp úr, enda alveg ljóst að þetta verður drepfyndið stykki þegar menn slípast betur í rullunum og hamagangur í sviðshreyfingum tekur að magnast.

Þannig að ég held ég fari bara snemma í rúmið í kvöld.

(Þennan pistil ber ekki að skilja sem svo að ég sé neitt að niðurlotum kominn, það er bara smá annríki í gangi þessa dagana.)


< Fyrri færsla:
Alvarleg geðræn vandamál?
Næsta færsla: >
Ég er juðari
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry