Danska genbrúgsgullið gleymdist

Seinnipart laugardags tróðum við margs konar drasli úr geymslunni minni (IKEA bylgjupappa, tveimur ruslapokum af dagblöðum og öðru spennandi) inn í afturendan á Rúdolf (sem er rauð Toyota í eigu Alex) og skutumst í Sorpu í rigningunni.

Þar dunduðum við okkur við að tína úr bílnum í hina ýmsu gáma og ég endaði á að skjótast með stólgarma í nytjagáminn.

Fyrir utan troðfullan gáminn var forláta símaborð með stól (eða símastóll með borði) úr tekki í seventísstíl. Leðuráklæðið var gauðrifið, en mublan virtist að öðru leyti í góðu ásigkomulagi (a.m.k. regnvot í myrkrinu).

Innblásinn af ótal þáttum í dönsku sjónvarpi þar sem handlagið fólk gerði upp gamla stóla og annað dót sem hirt var af haugum, greip mig sú firra að þessa mublu ætti ég nú að geta hresst upp á.

Eftir ráðfærslu við bíleigandann var mubblan því hirt og bíður nú í geymslunni minni þess að keyptur verði í hana svampur og áklæði og að ég spreyti mig með heftibyssuna (sem er verður næsta græja sem ég kaupi).

En fyrst þarf líklega að klára að lakka skenkinn, verst hvað illa hefur viðrað til þess þá daga sem ég hef haft lausan tíma - og nú er spáð frosti um helgina.

Eitt er víst að ég mun stæra mig af allri framvindu á þessum sviðum hér í dagbókinni; stórri sem smárri.


< Fyrri færsla:
Öryrkjavagn á Laugarveginum
Næsta færsla: >
Hvar liggja mörkin?
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry