Dálítið klúðursleg lökkunartilþrif

Ég hafði áhyggur af loftræstingu við lökkunina og dröslaði því skenknum og fylgihlutum út á svalir í góða veðrið í gær, laugardag. Ég vissi reyndar að það væri í það kaldasta, en lét engu að síður slag standa.

Kuldinn gerði það hins vegar að verkum að lakkið varð óþægilega seigt í meðförum, þannig að eftir að hafa slummað á nokkra skúffufronta og minna áberandi hillufleti játaði ég mig sigraðan og flutti aðgerðir inn.

Í dag, sunnudag, byrjaði ég því á að pússa yfir mesta klúðrið og setja aðra lakkumferð þar sem þörf var á.

Síðan kom að því að lita aðalmubluna og ætlaði ég þá að draga fram breiða pensilinn til að fá nú fallegar strokur. Þá kom í ljós að hann er svo breiður að hann kemst ekki ofan í lakkdósina!

Ég þurfti því að nota litla pensilinn til að maka lakki á hliðar og lok og strjúka úr klessunum með stóra penslinum.

Sýnu versta klúðrið kom þó í ljós þegar ég var byrjaður að bera á mikilvægasta flötinn - toppinn á skenknum. Ég áttaði mig ekki á því að þar hefur lakkið verið sýnu þykkara en annarsstaðar á mublunni, og því hefði ég þurft að pússa toppinn mun meira. Ósýnilegu leifarnar af gamla lakkinu gera það að verkum að það sem átti að vera voðalega fín yfirferð mín er óttalega uphleypt og bólótt.

Nú er planið að líta á þessa einu umferð sem komin er á toppinn sem grunnun, leyfa henni að þorna og pússa hana aðeins upp og lakka aftur yfir á morgun. Ég nenni ekki að óreyndu að hreinsa allt ofan af mublunni aftur.

En það er samt gaman að þessu.

Svo er það skrifborðið í næstu skorpu framkvæmdabjartsýninnar og þar á eftir líklega tekkmublan nýhirta.


< Fyrri færsla:
Vasavefur lifnar við
Næsta færsla: >
Nánar um markafærsluna
 


Athugasemdir (2)

1.

Siggi reit 26. febrúar 2007:

Það mætti halda að þú notaðir olíulakk ;)

2.

Þórarinn sjálfur reit 26. febrúar 2007:

Sést það?

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry