Nánar um markafærsluna

Ég sé á athugasemdum við færslu föstudagsins um það hvar mörkin liggi að ég hef greinilega ekki verið alveg nógu skýrmæltur í því sem ég var að segja og ætla því að reyna aftur.

Hinn landsfrægi bloggari Shift-3 (*) kommentaði á færsluna mína "Hvar liggja mörkin?" og þykir honum í framsetningu spurningarinnar liggja að "sá sem amist við einum gesti, sé á einhvern hátt skikkaður til að amast við öllum".

Í ljósi þessarar athugasemdar þykir mér rétt að reyna að útskýra nánar hvað ég var að fara.

(Fyrst verð ég þó að biðjast velvirðingar á að hafa hagað mér eins og íslenskur fjölmiðlamaður og haft í frammi rangfærslur án þess að kynna mér málið þegar ég notaði orðið "klámráðstefna". Mun því hér eftir tala um skíðaferð.)

Afl grasrótarinnar?

Á umræðunni undanfarna daga hefur verið svo að skilja að það að Hótel Saga skuli hafa meinað fyrirhugðum gestum um gistingu sé sigur grasrótarinnar og "samstaða hafi verið hafin yfir pólítíska flokkadrætti, bandalög, vinahópa og hugmyndafræðileg átök".

Það er vissulega rétt að það að vekja fyrst athygli á skíðaferðinni fyrirhuguðu og láta í ljósi vanþóknun sína á henni gerðist í blogg-grasrótinni. Það voru hins vegar pólitísk afskipti sem gerðu útslagið, eins og hótelstjórinn og framkvæmdastjóri Bændasamtakanna hafa staðfest.

Það er einmitt sú staðreynd að stjórnvöld skuli taka sér það bessavald að ákveða í nafni þjóðarinnar hvaða ferðamenn megi koma til landsins og hverjir ekki sem var hvati færslunnar minnar í fyrradag.

Hvað með til dæmis Bush?

Gefum okkur að forseti Bandaríkjanna gæfi það út að hann væri á leið til Íslands með fylgdarliði og ætlaði að gista á hérlendu hóteli.

Nú held ég að fæstir reyni að mótmæla því að hann ber ábyrgð á mun fleiri dauðsföllum og mannlegum harmleikjum en allur klámiðnaðurinn til samans (hvort sem hægt hefði verið að komast hjá þeim styrjöldum sem hann háir í nafni frelsisins um víða veröld eða ekki, þá er ábyrgðin hans á að efna til þeirra.)

Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að sjá fyrir sér að grasrótarsamtök á borð við t.d. Samtök hernaðarandstæðinga myndu mótmæla komu hans hingað til lands, og það eflaust af álíka krafti og feminístar skíðaferðinni. Hins vegar þarf afskaplega ríkt ímyndunarafl til að láta sér detta í hug að (núverandi) stjórnvöld myndu taka nokkuð mark á slíkum röddum í því tilviki.

Klámiðnaðurinn á sér hins vegar fáa forsvara og því er (a.m.k. á yfirborðinu) auðsótt mál fyrir pólitíkusa að gefa út yfirlýsingar og beita þrýstingi til að meina þeim inngöngu í landið.

Jafnræðisreglur og velþóknunarnefndir?

En þar sem um var að ræða aðgerðir stjórnvalda hlýtur það að vera á ábyrgð þeirra að gæta jafnræðis í ákvörðunum sínum um það hvaða ferðamenn megi koma til Íslands og hverjir ekki.

Er þá ekki eðlilegt að leggja spilin á borðið og stofna nefnd sem fer yfir t.d. nöfn, starfsheiti og ferilskrár allra erlendra ríkisborgara sem hér panta hótelgistingu og úrskurðar um það hvort stjórnvöld hafi á þeim velþóknun eða ekki.

Þá nefnd mætti t.d. kalla velþóknunarnefnd (svona svipað og mannanafnanefnd).

Afskipti stjórnvalda almennt

En að hálfkæringi slepptum er rétt að hamra á því að ég er almennt á móti óþarfa afskiptum stjórnvalda af málum líðandi stundar, þar á meðal því að banna ferðamönnum að koma til landsins byggt á störfum þeirra.(**)

Ég veit svei mér ekki hvort fer meira í taugarnar á mér þegar slík afskipti eru uppi á borðinu eins og í tilviki Falun Gong hérna um árið, eða með baktjaldaþrýstingi eins og í tilviki umræddrar skíðaferðar.

Hvaða helvítis baráttu gegn klámi?

Það pirrar mig líka í þessum farsa öllum saman hvað menn eru duglegir að berja sér á brjóst og láta eins og unnist hafi einhver stórsigur fyrir hönd jafnréttis og gegn kynferðisofbeldi núna þegar skíðaferðin hefur verið blásin af.

Til dæmis er haft eftir formanni bændasamtakanna í Fréttablaðinu á föstudag að samtökin "vilji leggja sitt lóð á vogarskálarnar í baráttunni gegn klámi". Í hverju felst sú barátta?

Mér vitanlega hafa ráðandi stjórnvöld ekki komið nálægt neinni baráttu gegn klámi síðan einkadans var bannaður í Reykjavík. Væri nú ekki nær að gera eitthvað í þeim mannsalstilburðum og frelsissviptingum sem allir vita að viðgengst í tengslum við íslenska súlustaði?

Hvað ætla bændur og borgarstjóri að gera í því þjóðþrifamáli?

Fordómalistinn minn

Tilgangurinn með listanum sem fylgdi færslunni minni var ekki sá að fullyrða að væri maður á móti einum á listanum hlyti maður að vera á móti þeim öllum, heldur einfaldlega að benda á að það eru til alls konar hópar og skilgreiningar sem um eru skiptar skoðanir og fordómar gagnvart.

Ég játa það fúslega að ég hef persónulega fordóma gagnvart sumum hópum á þeim lista og vil sem minnst af þeim vita. Það þýðir hins vegar ekki að þeir megi ekki mín vegna dýfa tá í Bláa lónið og taka myndir af sér berrössuðum uppi á jöklum ef þeim sýnist svo.

Ég á þá um leið kost á því að nýta ferða- og málfrelsi mitt til að láta í ljósi skoðun mína á þeim með friðsamlegum hætti.

Annars held ég að ég láti þetta gott heita um hina afboðuðu skíðaferð.


*) Fyrir þá sem ekki þekkja til er Shift-3 alter-egó Stefáns Pálssonar.

**) Það breytir því þó ekki að á hinum hefðbundna (og löngu úrelda) hægri/vinstri skala myndi ég flokka mig vinstra megin, enda hlynntur öflugu (ríkisreknu) velferðarkerfi.


< Fyrri færsla:
Dálítið klúðursleg lökkunartilþrif
Næsta færsla: >
Andri strikes again?
 


Athugasemdir (1)

1.

Jón H reit 26. febrúar 2007:

Ég er reyndar mjög hlynntur ríkisreknu velferðarkerfi, sérstaklega hvað varðar heilbrigðiskerfið og menntakerfið. Samt mælist ég sem (hófsamur) frjálshyggjumaður. Bölvað miðjumoð í manni alltaf hreint. En spurningarnar á kvarðanum mæla ekki beint viðhorf til þessara hluta heldur taka miklu meira á siðrænum málum enda Bandaríkjamenn sem semja spurningarnar og þeir eru miklu uppteknar af slíku en við dekadent Evrópubúar.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry