Mynd úr skápnum

Eftirfarandi ljósmynd var tekin af fataskápnum mínum fyrir rúmri viku, en vegna anna hef ég ekki gefið mér tíma til að opinbera hana fyrr.

Mynd úr fataskápnum mínum

Og þá er spurning hvað þessi mynd og birting hennar hér táknar:

  1. Ég er loks að koma út úr skápnum með fetish mitt fyrir kvenskóm í stærð 35.
  2. Ég er að taka fyrstu skrefin í því að koma upp lítilli vefverslun fyrir notaða kvenskó (í stærð 35)
  3. Alexandra er flutt inn.

Því má við getraunina bæta að þetta sjónarhorn er ekki lengur fyrir hendi, þar sem skápurinn er orðinn troðfullur af kvenflíkum margskonar.

Blóð, sviti og tár

Síðastliðin helgi fór að mestu í flutninga og voru farnar ótal ferðir á Rúdólf með alls konar gripi. Eins og vera ber var tekið á í burði og þaðan kemur sviti fyrirsagnarinnar, nokkrir blóðdropar féllu þegar ég þræddi vísifingurinn á mér upp á hefti sem stóð út í loftið í rúmbotni Alexöndru og þótt í raun hafi ekki fallið nein tár lá kannski við nærri þegar eina óhapp flutningsins varð í formi mölvandi falls uppáhaldslampa eins forláta.

Nú er íbúðin mín með töluvert meiri kvenblæ en áður og puntgripir ýmsir teknir að ráða ríkjum og eldhússkápar troðfullir af alls kyns kræsingum og matreiðslugræjum.

Alex hefur staðið sig eins og hetja í þessu flutningastússi, með uppröðunum hér á Flyðrugrandanum og niðurpökkun og þrifum á Hringbraut. Ég hef hins vegar þóst vera önnum kafinn við að undirbúa Tækni og vit sýninguna og standa á básnum okkar þar nokkra daga, við fundahöld kynningahóps vegna yfirvofandi frumsýningar Hugleiks og í smá feðgabonding meðan hún hefur keppst við öll kvöld.

Vonandi fer ég að geta sýnt örlítið meiri lit, en það sem af er þessum sunnudegi lofar ekki sérlega góðu. Eftir að hafa vaknað nokkurn vegin á sómasamlegum tíma fyrir mann á mínum aldri steinsofnaði ég og vaknaði ekki fyrr en gemsinn hringdi rúmlega 12. Hef verið heldur sljór síðan.

Annars var kötturinn Emil hér í aðlögun í nótt. Eftir flutningana hefur hann lögheimili hjá "ömmu sinni", en ætlunin er að hann komi hingað í opinberar visitasíur stöku sinnum. Vinir og kunningjar með kattaofnæmi hafa hér með verið varaðir við.

Það fór lítið fyrir Emil í þessari heimsókn, en óneitanlega kvíðir húsbóndi því örlítið að stofusófanum verði hugsanlega sýnd of náin atlot með reistum klóm. En það er ekkert enn sem bendir til slíks.

Meira um þetta allt saman síðar, nú eru það heimilisstörfin sem kalla.


< Fyrri færsla:
Allur í vasanu
Næsta færsla: >
300 stæltir skrokkar
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry