Eplin eru ljúffeng

Eftir frumsýningu gærkvöldins á Eplum og eikum get ég með góðri samvisku hvatt alla til að skella sér á sýningu. Ég held að þetta sé skemmtilegasta (og e.t.v. besta) uppfærsla Hugleiks sem ég hef séð.

(Til að allrar sanngirni sé gætt er þó rétt að taka fram að ég hef aðeins séð tiltölulega fáar Hugleixzkar uppfærslur - a.m.k. miðað við aðra félagsmenn).

Það var ekki að sjá að þetta væri "bara" áhugamannaleikhús, því allir leikendur stóðu sig óaðfinnanlega vel - bæði í leik og söng. Textinn er mikill og vandmeðfarinn (enda óspart beitt alls kyns klisjum ástarsagna) en komst vel til skila.

Möguleikhúsið er kannski ekki allra besta sýningarrými sem um getur, sviðið er lítið og sætin ekki sérlega brött.

Það var samt með ólíkindum hvernig tókst að troða 6 manna hljómsveit, 8 leikendum og 3 söngdívum á þetta litla svið og það án þess að nokkurn tíman yrði úr kaós.

En leikhúsið er samt eini merkjanlegi galli uppfærslunnar, því jafnvel þótt ég sé ekki sérlega lár í sæti þurfti ég nokkrum sinnum að teygja mig til að sjá hvað væri að gerast allra fremst (og neðst) á sviðinu. Það er því góð hugmynd að mæta snemma og sitja framarlega.

Kóreógrafía Odds Bjarna (leikstjóra) gengur frábærlega upp og meira að segja bregður fyrir glæsisenum í anda klassískra dans- og söngvamynda Hollívúdd - auk fyrsta steppdansatriðisins í Hugleixzkri sögu.

Sem sagt; allir í leikhús - og það sem fyrst.

Baktjaldamakk kynningarhópsins

Mín er getið í sýningarskrá sem hluta af "Kynningarteymi", en verð nú að játa að minn dugnaður þar hefur bliknað í samanburði við tilþrif Nínu og Önnu Beggu (sú síðarnefnda gerði sér lítið fyrir og seldu upp heila sýningu á einu bretti), auk Gumma og Siggu Láru sem sjá um leikskrá og taka þátt í kynningarmálum.

Mín aðkoma hefur aðallega verið í hugmyndaformi - og þá einkum hugmyndir varðandi það að virkja tæknina. Við í hópnum ákváðum að reyna að virkja bloggbylgjuna eftir mætti, til dæmis með því að bjóða ekki bara hefðbundu fjölmiðlafólki á lokarennslið - heldur líka nokkrum valinkunnum bloggurum.

Það verður hins vegar að segjast að það er mun auðveldara að grafa upp netföng þeirra sem starfa á fjölmiðlum en bloggaranna, þannig að við náðum kannski ekki að bjóða eins mörgum og við hefðum viljað.

Einn þeirra sem þáði boðið er hinn þjóðþekkti Stefán Pálsson, sem sá í gegnum plottið og lætur það ekki aftra sér frá því að hrósa sýningunni í hástert.

Epli og eikur eftir Þórunni Guðmundsdóttur er dæmigerð Hugleiks-sýning. Að þessu sinni er ekki snúið út úr menningararfinum eða bókmenntasögunni, heldur er sögusviðið Hljómskálagarðurinn (sniðug sviðsmynd) og plottið eiginlega stæling á hefðbundnum ástarvelluförsum - nema aðalsöguhetjurnar eru krimmar eða fólk sem dreymir um að leiðast út í glæpi. Lestir teljast því dyggð og öfugt.

Leikararnir stóðu sig vel. Baldur Ragnarsson, sem leikur aðalsöguhetjuna Lárus, er sérstaklega skemmtilegur í hlutverki sínu - þar sem hann leikur með andlitinu allan tímann (er það ekki eitthvað svoleiðis sem maður segir í leikdómi?)

Mæli í það minnsta með Epli og eikum fyrir þá sem vilja sjá skemmtilega sýningu.

Meira í vændum

Við létum ekki við það sitja að bjóða bloggurum á rennsli, því þegar er búið að setja eitt vídeó á YouTube og fleiri í bígerð.

Sökum anna hefur tafist að gera upptökur af tónlistinni aðgengilegar á netinu, en það gerist innan skamms.

Það er líka svolítil tímapressa í gangi, því vegna veikinda á æfingatímanum (bæði hjá okkur og Möguleikhúsinu) er sýningaplanið mjög samþjappað og okkur því nauðsyn að koma hratt af stað góðu umtali.

Liður í því er að annað kvöld kostar ekki nema þúsundkall (í stað 1.500 eins og venjulega) og um að gera fyrir áhugasama að skella sér.

Því ég er viss um að þegar umtalið verður komið á skrið verður uppselt á síðustu sýningarnar.


< Fyrri færsla:
Kapp í heimilisfólki
Næsta færsla: >
Slá slöku við
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry