Bestu mögulegu gæði?

Ég sá mér leik á borði að heimsækja Sigmar og Margréti í kvöld og horfa á leik Manchester United og Sheffield United.

Vongóður mætti ég á réttum tíma, en þegar kveikja átti á Skjánum kvartaði hann yfir að samband næðist ekki. Eftir tuttugu mínútna bras þar sem reynt var að slökkva á myndlyklinum og kveikja, slökkva og kveikja á routernum og allra handa hundakúnstir var ég við það að gefast upp.

Það næsta sem maður náði sambandi við var VOD treilerar, en það var ekki hægt að fletta yfir á aðrar rásir (og það að encoding villa var í nafni rásarinnar gaf til kynna að eitthvað væri ekki alveg í lagi).

Loks hrökk þetta í réttan gír og ég gat horft á seinni hluta þessa fyrri hálfleiks. Í leikhléinu skipti ég aðeins yfir á Arsenal leikinn og fór aðeins fram og til baka meðan ég beið eftir að leikar hæfist að nýju. Þegar að því kom svo að hléinu lauk birtist "Myndlykill nær ekki sambandi..." þótt ég heyrði Snorra Má lýsa því að nú væru menn að koma inn á völlinn.

Upphófust þó sömu æfingar og áður, en nú var mun minna eftir af þolinmæði minni. Eftir að hafa stöku sinnum náð sambandi við VOD rásina eina kom að því að ég gafst upp og kvaddi.

Til að bíta höfuðið af skömminni voru þessar sárafáu mínútur af leiknum sem ég sá ósköp daprar.

ADSL sjónvarp

Þessi upplifun ýtir undir fyrri skoðun mína um að tæknin til að senda sjónvarp um ADSL sé einfaldlega ekki nægilega þroskuð (skoðun sem ég var reyndar farinn að efast aðeins um).

Það breytir því ekki að jafnvel þegar samband næst við ADSL-varp Símans er þjöppun myndarinnar vel greinileg ef maður veit eftir hverju á að horfa. Meira að segja á ódýra túpusjónvarpi Sigmars bróður sé ég greinilegan mun.

Slagorðið "Í bestu mögulegu gæðum" sem Skjárinn notar til að auglýsa VOD þjónustuna er því í besta falli vafasöm fullyrðing (að mínu viti reyndar hrein lygi). Myndgæði á DVD diskum eru merkjanlega betri.

Ég er svo ekki alveg að sjá hvernig menn ætla að fara að því að troða HD útsendingum gegnum þessa sömu pípur eins og fullyrt er að standi til...

Hvar er blessaður ljósleiðarinn þegar maður þarf á honum að halda?


< Fyrri færsla:
Eplin batna bara
Næsta færsla: >
Alltaf í Þjóðleikhúskjallaranum
 


Athugasemdir (1)

1.

Mummi reit 20. apríl 2007:

Hear hear.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry