Sparkað í Microsoft-dekkin

Microsoft SharePoint er kerfi frá Microsoft sem hefur þróast frá því að vera skjalaumsýslukerfi yfir í að vera heildarlausn fyrir innri vefi.

Samkvæmt Microsoft-mönnum er vefsmíðahlutinn (SharePoint Designer) mikil bæting frá gamla FrontPage (enda ætti annað varla að vera hægt) og hægt að viðhalda ytri vefjum í kerfinu líka. Dæmi um slíkt er víst Vista vefurinn.

Ég er búinn að vera á leiðinni að skoða kóðann lengi, en lét loks verða af því í gær eftir að það var ljóst að a.m.k. tvö tilboð í nýjan vef Landspítala Háskólasjúkrahúss byggja á því að nota SharePoint (þótt það sé ekki pottþétt að það yrði á ytri vefnum líka).

Það er víst óþarfi að vara lesendur við því að nördastuðull þessarar færslu á bara eftir að versna...

Örlitlar bakgrunnsupplýsingar

Fyrir óinnvígða vefnörda er rétt að taka fram að um það leyti sem veraldarvefurinn var að stíga sín fyrstu spor voru töfluuppsetningar notaðar til að móta uppsetningu síðna. Síðan þá hefur möguleikum fleytt fram og allir metnaðarfullir vefsmiðir hættir að nota töflur í öðrum tilgangi en að birta töfluupplýsingar.

Einn gallanna við töflur er að vefir uppsettir í þeim eru nærri algerlega óaðgengilegir blindum notendum (og skjóta sig þar með í fótinn gagnvart leitarvélum á borð við Google). Annar stór galli er að í gamla daga var útlitinu oft náð fram með því að troða töflu inn í aðra töflu, sem hægir á því að teikna upp síðuna.

Þannig að í nútíma vefun gildir meðal annars að:

  • Ekki nota töflur til að stýra útliti síðna.
  • Ekki hafa uppbygginguna of flóka (með einingum inni í öðrum einingum).
  • Ekki flækja útlitskóða inn í grunnkóða síðunnar.

Sparkað í dekkin á SharePoint

Hvernig gengur Microsofturum sjálfum svo að nota verkfærið sitt til að byggja góðan vef?

Forsíðan er ekki sérlega flókin í uppsetningu, þannig að það er ekkert sem bendir til annars en að hægt væri að setja hana upp með einföldum og snyrtilegum hætti, kannski svona tug div-marka og klárlega engin þörf á töflum.

Á forsíðu Vista eru hins vegar 156 töflur. Segi og skrifa 156. (Þeim fylgja svo 156 "cellpadding=0" og "cellspacing=0", nokkuð sem ekki hefur sést á alvöruvef síðan 2001).

Rannsóknarvinna Más leiddi í ljós að dýpst eru töflur (28 stykki) á níunda lagi, þ.e. tafla inni í töflu, inni í töflu, inni í töflu, inni í töflu, inni í töflu, inni í töflu, inni í töflu, inni í töflu, inni í töflu.

Ef horft er á öll element eru 7 sem eru á 47. stigi frá body (þ.e. mark inni í marki 47 sinnum...)

Þetta er svo hrikalegur kóði að það er lygilegt. Ótrúlegt að þetta skuli vera að koma úr nýju og rándýru vefkerfi frá stærsta hugbúnaðarframleiðanda heims.

Uppfært:

Beiskt bragð

Til að staðfesta að töflutuð mitt er ekki bara innantómt beturvitanöldur má benda á að á forsíðu Microsoft er ekki ein einasta tafla notuð til að stýra útlitinu (útliti sem er ekki ósvipað Vista vefnum).

Enda hafa þeir unnið forsíðuna með nútímavinnubrögðum og án þess að éta sinn eigin hundamat.

Það kæmi mér ekki á óvart þótt einhver vefmaður innan M$ sé með svolítið beiskt bragð í munni yfir hroðanum sem SharePoint ælir út úr sér...


< Fyrri færsla:
Alltaf í Þjóðleikhúskjallaranum
Næsta færsla: >
Prýðilegt franskt popp
 


Athugasemdir (1)

1.

Borgar reit 26. apríl 2007:

Að auki má geta þess að síðan er 103K af HTML. Hún sækir þar að auki 300K af aukaefni (myndum, stílum, og scripti) í 101 requestu. Ég fæ að auki 158 villur og aðvaranir frá HTML validator.

Berum þetta saman við island.is sem virkar fljótt á litið svipuð síða. 16K af töflulausu HTML í 51 requestu. 202K af aukaefni. 8 villur.

Þetta segir auðvitað ekkert um aðgengi. Þetta er bara skýringin á því hvers vegna síðan er svona hæg og hvers vegna hún krassar vafranum mínum þegar ég er að fletta henni.

Vista síðan er svo gott sem ónothæf textavöfrum, farsímum, og sjálesurum vegna þess að hún stólar á bæði css og javscript til þess að virka. Ojj!

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry