Prýðilegt franskt popp

Ég verð að viðurkenna að ég hafði aldrei heyrt talað um hljómsveitina Nouvelle Vague þegar Alex stakk upp á því að fara á tónleika með henni.

Eftir að hafa kíkt á nokkur lög með hljómsveitinni á YouTube leist okkur vel á og ákváðum að skella okkur með vinapari Alex sem voru líka á leið á tónleikana.

Ég hafði raunar ekki einu sinni tekið eftir því að þessir tónleikar væru auglýstir, jafnvel þótt ég eigi að heita skráður á miðavakt Midi.is...

Grill og tónleikar

Við buðum áðurnefndu vinapari upp á grillkræsingar fyrir tónleikana og fengum svo far með þeim niður í bæ.

Eins og sést af ofantilvísuðum myndbrotum sérhæfir hljómsveitin sig í því að covera lög frá því kringum 1990 í djössuðum latínó-frönskum poppstíl. Það tók oft nokkra takta að átta sig á því hvaða lag væri verið að covera og síðan brutust út klöpp og blístr þegar upp runnu ljós fyrir gestum (tónlistarþekking mín er reyndar ekki meiri en svo að ég kannaðist ekki við nema um helming laganna).

Stemmningin í salnum var fín og hljómsveitin dugleg að virkja fólk með, t.d. í að kyrja "Too drunk, too drunk to fuck" og "Love, love will tear us apart".

Eftir um klukkutíma leik þökkuðu þau fyrir sig og hurfu af sviðinu, en voru klöppuð upp í tvígang. Önnur söngkonan hafði orð á því að þau hefðu verið að spila fyrir tvöfalt fleiri nokkrum kvöldum fyrr, en lætin í þeim áhorfendum hefðu verið mun minni.

Eftir tónleikana fengum við okkur öl á Café París áður en við tókum taxa heim. Þangað vorum við komin um miðnættið og það var í raun afskaplega passlegt fyrir okkur fólkið á besta aldri eftir annasama viku.

En þau fá sem sé mín meðmæli, alveg þess virði að kynna sér aðeins betur.


< Fyrri færsla:
Sparkað í Microsoft-dekkin
Næsta færsla: >
Ítarleg pólitísk yfirborðsgreining
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry