Flottir á því

Þegar ég kom heim í dag beið mín ársskýrsla Bakkavarar Group fyrir 2006. Þónokkur doðrantur með margvíslegum upplýsingum bæði fyrir fagidjóta og venjulega idjóta (eins og mig).

Hlutur minn í Bakkavör er reyndar aðeins dropi í hafið (þótt hann skipi vissulega stóran sess í verðbréfaeign minni) en ég fæ engu að síður árlega frá þeim ársskýrslu. Það hefur verið yfirlýst stefna þeirra að senda öllum skráðum hluthöfum ársskýrslu, sem virkilega ýtir undir tilfinningu fyrir eigin mikilvægi og stolti yfir sínum hlut.

Ekki man ég t.d. eftir að hafa nokkurn tímann fengið ársskýrslu frá Landsbankanum, og var þó hlutur minn þar svipað stór (áður en hann var seldur til að halda uppi neyslu á dönskum bjór).

Þrátt fyrir þessi flottheit glotti ég um hver áramót þegar ég fæ hluthafamiða frá Bakkavör þar sem eign mín er tilgreind á miða sem virðist vera 1/5 af A4 síðu. Þar er sko nýtnin í fyrirrúmi.

Framsetningarlega séð er skýrslan áferðarfalleg, flottar ljósmyndir og vel unninn texti. Ég er hins vegar ekki alveg jafn sáttur við grafíska uppsetningu, hún verður á köflum svolítið óróleg (of sterkir litafletir og "loftun" fórnað fyrir einsleitni).

Tunglið fær því ekki nema í mesta lagi 6 í einkunn fyrir hönnun og umbrot frá mér.

Textar eru vel unnir og gefa imbum eins og mér innsýn í það hvað fyrirtækið er að gera á ólíkum mörkuðum (og hvers vegna).

Mér sýnist við bara að vera að standa okkur ágætlega í rekstrinum...

Pie and chips

Til að undirstrika mannleika stjórnarmanna og helstu yfirmanna er auk menntunar og reynslu tiltekinn eftirlætisréttur hvers og eins.

Bakkabræður eru menningarlegir og tiltaka ostrur, sushi og húmmus sem eftirlætisrétti sína.

Antoniou P Yerolemou heldur upp á plokkfisk (innan sviga útskýrt að það sé Icelandic speciality).

Mér finnst samt Brian Walton flottastur: "Pie and chips" (engin verðlaun veitt fyrir að giska á hvers lenskur hann er).

Þar rétt á eftir kemur Ann Savage: "Christmas dinner".


< Fyrri færsla:
Buxur með broti
Næsta færsla: >
Orð dagsins: Fánahommi
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry