Ekki mótfallinn virkjunum
11. maí 2007 | 0 aths.
Í mínum huga eru virkjanamöguleikar hérlendis klárlega auðlind sem rétt er að nýta.
Hins vegar er út í hött það þróunarlandaviðhorf að við verðum að bjóða auðlindir okkar á undirverði til að fá að vera með í leiknum. Þvert á móti eigum við að verðleggja orkuna hátt og selja hana sem eftirsóknarverða græna gæðavöru (og gefa upp verðið).
Sem dæmi um þetta þróunarlandaviðhorf virðist í dag ekki virkjað til að fá tekjur af orkusölunni, heldur til að fá ný störf í álverum...
Virkjanakostnaðurinn virðist afskrifaður sem fórnarkostnaður til að álverin fáist. Og í landi án atvinnuleysis hlýtur að vera spurning hvort ekki séu til betri leiðir til að færa störf út á land.
Ég er því ekki á móti virkjunum séu þær faglega undirbúnar og tryggt að ekki sé verið að tapa á fjárfestingunum.
Ég er heldur ekki á móti því að hin selda orka sé nýtt til mið- eða stóriðju (ef rétt er staðið að t.d. mengunarvörnum), en er hins vegar alfarið á móti því að byggja fleiri álver. Þó ekki sé nema vegna þeirrar augljósu áhættu sem felst í því að hafa öll sín egg í sömu körfu.
Þegar álverin færast á eina hendi eins og nú stefnir í, og reynt er að halda uppi byggðum með álverum einum saman er samningsstaða álrisanna orðin allt of sterk.
Auk þess er ég tortrygginn í garð iðnaðar sem byggir á því að sigla grjóti frá Ástralíu hingað til lands til þess eins að stinga því í samband við ódýrt rafmagn, það þarf ekki mikið að breytast til að slíkir grjótflutningar verði óhagkvæmir.
Og eins og Varríus bendir á þarf ekki nema eitt orð stimpla stjórnarflokkana sem óverðuga atkvæðis: Írak.
Út með gömlu spillinguna og inn með nýja!
Útrætt mál
Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.
Comments are closed for this entry