Alltaf á fundum

Húsfundur í gær

Í gærkvöldi var haldinn hinn árlegi húsfundur stigagangsins, að þessu sinni í íbúðinni fyrir neðan okkur. Af staðháttum þar er helst að frétta að þegar horft er út á svalirnar gnæfa tré, trúlega sömu trén og eru birkihríslur sem glyttir í hérna einni hæð ofar.

Ég hef greinilega misst af miklu fjöri tengdu einu af íbúum hússins (þótt ég hafi vissulega orðið var við ákveðið fjör). Þar á meðal formlegri áminningu húsfélagsins og enn er yfirvofandi lögfræðiaðgerð vegna óleyfilegs sólpalls viðkomandi.

Fundurinn einkenndist annars af því að flest sátum við kringum sófaborðið en gjaldkerinn (sem stjórnaði fundinum) og formaðurinn sátu við borðstofuborðið. Fyrir vikið var fundurinn nokkuð teygður og það kom ítrekað fyrir að í gangi voru tvö eða fleiri samtöl og gjarnan snerist a.m.k. annað þeirra um eitthvað sem rætt hafði verið innan við fimm mínútum áður.

Sérstaklega var einn eldri herra duglegur að koma með góðar ábendingar sem iðulega hafði komið fram nokkrum mínútum fyrr að væri þegar gert í húsinu.

Þegar talið barst að endurnýjun á sjónvarpslögnum í húsinu og áðurnefndur herra hélt því statt og stöðugt fram að Breiðbandinu væri dreift um koparvír, en ekki ljósleiðara sannfærðist ég endanlega um að rétt væri að leiða gullmola hans hjá mér.

Fyrri aðalfundur Hugleix

Í kvöld var svo fyrri aðalfundur Hugleix. Þar bar helst til tíðinda að ég bauð mig fram sem varamann í stjórn. Þetta reyndust einu embættin sem ekki var sjálfkjörið í, en ég reyndist einn þeirra þriggja sem hlutu flest atkvæði.

Margt var annars rætt á fundinum og hann dróst á langinn. Þegar fundi var slitið og menn fóru að ræða á hvaða bar ætti að stefna til að reykja síðustu löglegu réttuna dreif ég mig út í bíl og heim. Á leiðinni hringdi svo formaðurinn í mig að láta mig vita að ég væri að missa af mínum fyrsta stjórnarfundi.

Ég held reyndar að það hafi aðeins verið örfundur til að leita að dagsetningu fyrir næsta fund.

Reynt verður að troða honum inn fyrir seinni aðalfund í haust.

Svo er útskriftarveisla annað kvöld og í framhaldi af því lokahnykkur starfsársins hjá Hugleik í formi tónlistardagskrár í Leikhúskjallaranum.


< Fyrri færsla:
Hagfræðilíkanið yfir júróvisjónnágranna
Næsta færsla: >
Sitthvað úr tenglasarpnum
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry