Víkingar í vesturbænum

Síðastliðið laugardagskvöld kom lox að því að Alex var kennd hin forna víkingaíþrótt Kubbur.

(Já, við lifum sko villtu lífi í vesturbænum!)

Við ætluðum að reyna að finna okkur þokkalegan grasbeðil einhversstaðar í nágrenninu (lóðin "okkar" var heldur loðin) til að stilla upp kubbunum og vorum á leiðinni út úr dyrum þegar nágranni okkar, amma Alexöndru, hringdi. Allt í voða á þeim bænum og allar stöðvar dottnar út úr sjónvarpinu (sem ég hafði fyrr í vetur (það er ekki komið sumar er það nokkuð?) læknað með handayfirlagningu) (löng saga).

Það var því rölt yfir í nærliggjandi ellismellaíbúð og ég prófaði að ýta á "TV" takkann á forritanlegu fjarstýringunni og til öryggis að slökkva og kveikja á sjónvarpinu. Þar með virkaði allt eins og draumur.

(Útfelling stöðvanna var með öðrum orðum tregða fjarstýringarinnar við að skipta um stöð).

Að vitjun lokinni var sjálfgefið hvaða grasbleðli við stilltum upp á. Alex tók ekki annað í mál en að fá fullorðins völl (8 metra) og fyrir vikið varð þetta svolítið langur leikur. Fyrir óinnvígða vex jafnaðarlengd kubbleiks með stærð vallar (eins og þriggja ára barn gat lesið út úr síðustu setningu).

Hún sýndi góð tilþrif (Alex, ekki þriggja ára barnið) en þegar mér tóxt að koma mér aftur inn í leikinn hafðist þetta á seiglunni og ég hafði að lokum sigur.

Alexandra mun eflaust vera fáanleg til að gera grein fyrir því í ítarlegu og dramatísku máli hér í athugasemdunum hvernig ég gerði henni banatilræði með kubbkylfu þar sem hún var í mesta sakleysi að stilla upp tveimur vallarkubbum, því ætla ég ekki að ræða það atvik frekar hér.

(Né heldur heftið sem flaug óvart úr heftibyssunni minni þvert yfir stofuna í gær og flæktist næstum í hárinu á henni.)

Það sorglega var svo að daginn eftir var ég með vel merkjanlegar harðsperrur í aftanverðum lærunum...

Við því var ekki annað að gera en reima á sig hlaupaskóna og skakklappast 5 kílómetra hring á jafnaðartempói tíræðs astmasjúklings (einfætts með gláku).

Ég þarf nefnilega að koma mér í form snarlega fyrir næturgöngu yfir fimmvörðuháls.

Keypti andandi regnjakka fyrir þá göngu í dag - vona þó að ekki muni reyna á hann í þeirri ferð. Ég hélt ég væri að gera eðalkaup, en þegar ég kom með jakkann að kassanum kom í ljós að hann var vitlaust merktur, átti að vera 150% dýrari. Það olli mér ákveðnu hiki, en ég lét lox slag standa en sleppti létta jakkanum sem ég hafði gripið með (svona upp í 10 þúsund kallinn sem ég hélt mig vera að spara).

Þegar mestu vonbrigðin voru liðin hjá áttaði ég mig á því að ég væri engu að síður að fá góðan jakka á góðu verði (jafnvel þótt það væri ekki alveg jafn geðveikislega gott og ég héldi á tímabili) (og nei, ég reyndi ekkert að tuða yfir verðmerkingunni).

Veit annars einhver lesenda til þess að Kubbur hafi verið spilaður á gerfigrasi?


< Fyrri færsla:
Forvitnileg útgáfa salatbars
Næsta færsla: >
Leitað að litum
 


Athugasemdir (2)

1.

Alex reit 13. júní 2007:

Ég bíð bara eftir þriðju morðtilrauninni!!

2.

Már reit 14. júní 2007:

Ég þarf tilfinnanlega að komast í kennslustund hjá þér/ykkur í þessu krikketi norðursins.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry