Fæðingarhálfvitar með spoilerkit

Frétt mbl.is frá í morgun um bílahópinn sem ók fram úr sjúkrabíl í forgangsakstri (sem endaði í útafkeyrslu) vakti athygli mína (sem og fleiri). Ég fullyrði að þarna hafi verið á ferðinni hópur fæðingarhálfvita með spoilerkit.

Þá ályktun byggi ég á eigin reynslu.

Það þarf ekki mikla speki til að álykta sem svo að þegar fimm bílar í samfloti taka fram úr sjúkrabíl hljóti þeim að hafa verið ekið af fimm einstaklingum með sambærilega greindarskerðingu.

Bílarnir hafa líklega einnig verið í öflugri kantinum, og það kæmi mér því ekkert á óvart ef þetta reynist hafa verið hópur fæðingarhálfvita á leið á bíladaga á Akureyri.

Ég hef nokkrum sinnum verið á ferðinni um þjóðvegina þegar þessir bíladagar standa yfir og þá fara allir gúmmítöffararnir á Hyundai sportbílunum á 110% bílalánunum norður til að reyna að sjarma stelpurnar og hvern annan.

Ég stóð í þeirri trú að ég hefði skrásett upplifun okkar Sigga á leið heim frá leikskóla Bandalagsins fyrir þremur árum, en finn ekki í dagbókinni.

Við vorum sem sagt á leið suður á jepplingi Sigga og allir vegir fullir af ódýrum sportbílum og öflugum fólksbílum á sömu leið (allir með spoilerkit og álfelgur). Tveir þeirra voru greinilega í kappakstri þegar þeir tóku fram úr okkur þar sem við vorum á nokkurn vegin sléttu hundraðinu. Ég hafði á orði við Sigga að það væri líklega bara tímaspursmál hvenær við kæmum að öðrum hvorum þeirra eftir útafkeyrslu.

Það gerðum við örfáum mínútum síðar.

Heppilega fyrir hálfvitana hafði þetta gerst á stað þar sem vegkanturinn var lágur og bíllinn hafði endað á réttum kili rétt fyrir utan veg. Atvikið var greinilega nýskeð því farþegar voru að staulast úr og kíkja undir bílinn í kargaþýfinu.

Okkur sýndust allir við heilsu, þannig að við létum það eiga sig að stoppa. Nokkur hundruð metrum lengra var svo hinn kappakstursbróðirinn að myndast við að snúa bílnum við til að aka til baka.

Það eru svona fæðingarhálfvitar sem koma óorði á okkur hina bjálfana og því miður er því ekki að treysta að það sé bara sjálfa sig sem þeir drepa með svona háttalagi í umferðinni.

Fyrsta skrefið er klárlega að gera druslurnar upptækar. Ég legg svo til að við annað brot verði bensínfótleggur viðkomandi styttur um 10 sentimetra.


< Fyrri færsla:
Leitað að litum
Næsta færsla: >
Vilborg í gistingu
 


Athugasemdir (2)

1.

Mummi reit 16. júní 2007:

Enda hafa nú þessir sveppir og álíka þöngulhausar gert Akureyri að vígvelli. Varla líður mínúta öðru vísi en að maður heyri spyrnu- og/eða spólhljóð einhvers staðar í bænum.

Að þetta skuli talið eðlilegt og ásættanlegt, bara vegna þess að svona idjótar þurfa að sýna bílana sína og sjá hina. Hnuss.

2.

hildigunnur reit 17. júní 2007:

komment á ircrásinni minni: Svona lið þarf að Darwinast í burtu, án þess að það taki neina aðra með sér.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry