Vilborg í gistingu

Vilborg frænka fékk að gista hjá okkur Alex aðfaranótt laugardagsins. Foreldrarnir voru að fara í afmæli og um það samið að sú stutta gisti hér á Flyðrugrandanum.

Hún hafði haft af því pata að boðið yrði upp á pissu í kvöldmat og hafði víst lýst því yfir að hún gæti alveg hugsað sér að mæta kvöldinu fyrr. Enda sýndi hún af sér töluverðan dugnað og hesthúsaði hátt í tveimur sneiðum af 18 tommunni.

Daman gerði svo sitt besta til að vefja okkur um fingur sér og óskaði eftir spilun, púslun og perlun fram eftir kvöldi. Hún harðneitaði að sofa á dýnunni sem henni var ætluð, þannig að Alex svæfði hana uppi í rúmi og við færðum hana svo sofandi niður á dýnu þegar við fórum að sofa.

Hún vaknaði svo um nóttina og vildi komast upp í, við létum það eftir henni og umbárum bröltið þar til hún var sofnuð aftur. Eftir að hafa sett hana aftur á dýnuna og náð smá svefni til viðbótar vaknaði hún aftur og í þetta sinn svaf hún á milli þar til dagur rann.

Við vorum að viðra tjald á svölunum og það var mjög spennandi að fá að fara út í það - sér í lagi á laugardeginum þegar afinn og amman kíktu í heimsókn og foreldrarnir komu til að sækja hana, þá var farið í improviseraðan feluleik sem yfirleitt lauk á því að sú stutta skrækti upp yfir sig af kátínu og fannst þar með.

Út að borða

Um kvöldið fórum við svo öll familían (að ungfrú V undanskilinni) út að borða á Domo í tilefni af útskrift Margrétar systur sem mannfræðings fyrr um daginn, útskriftar sem hún var reyndar fjarverandi (enda vant við látin í spa-dekri).

Þetta var prýðileg kvöldstund þar sem fjölskylduskotin flugu beinskeitt fram og aftur um hringborðið og maturinn stóð vel fyrir sínu.

Hins vegar sýnist mér að við munum hafa misst af þjóðhátíðarræðu forsætisráðherra - söknum þess reyndar ekki neitt...


< Fyrri færsla:
Fæðingarhálfvitar með spoilerkit
Næsta færsla: >
Svindlið um hnatthlýnunarsvindlið
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry