Svindlið um hnatthlýnunarsvindlið

Í kvöld sýnir Sjónvarpið heimildarmyndina "The Great Global Warming Swindle", sem er vissulega fróðleg og vekur spurningar en hefur hins vegar verið gagnrýnd harðlega fyrir ófagleg vinnubrögð og blekkingar.

Ég horfði á myndina á netinu fyrr í vetur og kynnti mér aðeins umræður um hana í framhaldinu, enda þótti mér hún grunsamlega mikið á skjön við almenna umræðu um loftslagsmál og sumar fullyrðingarnar merkilega stórkarlalegar.

Til dæmis er tekið fram að koldíoxíð sé ekki nema lítill hluti andrúmsloftsins og það sé því fáránlegt að halda því fram að það hafi einhver áhrif. Það eru rök sem einstaklingur nýlega bitinn af eiturslöngu myndi eflaust fagna... en því miður ekki sérlega lengi.

Í stuttu máli leiddi sú leit mín í ljós mjög óvægna gagnrýni á vinnubrögð við gerð myndarinnar. Vísindamenn kvarta meðal annars yfir því að þeir hafi fengið rangar upplýsingar um viðfangsefni myndarinnar:

Professor Wunsch said: “I am angry because they completely misrepresented me. My views were distorted by the context in which they placed them. I was misled as to what it was going to be about. I was told about six months ago that this was to be a programme about how complicated it is to understand what is going on. If they had told me even the title of the programme, I would have absolutely refused to be on it. I am the one who has been swindled.”

Sólin og KR-ingar

Lykilfullyrðing myndarinnar er að það sem geti haft áhrif á hitastig sé sólargeislun og koldíoxíð. Koldíoxíð getur ekki útskýrt allar loftslagsbreytingar sem orðið hafa í sögu jarðarinnar og því hljóti það að vera sólargeislunin ein sem valdi þessu.

Þetta er klassískur útúrsnúningur í rökræðum: Nágrönnum mínum í KR hefur gengið illa í sumar, það er tvennt sem getur skýrt það; vont veður á leikjunum eða að tónlistin sé of hátt stillt í upphituninni fyrir leik. Einn dag var sól og þeir töpuðu samt, þess vegna skýrist slæmt gengi þeirra augljóslega af hávaðanum fyrir leik.

Ofangreind fullyrðing er klárlega algert bull (þótt hávaðinn í tónlistinni sé gersamlega óþolandi), en sýnir kjarnann í útúrsnúningnum. Ef ekki A eingöngu þá hlýtur það að vera B (og ekkert annað).

Grafið fræga

Eitt lykilatriði í myndinni er graf yfir hitastigsbreytingar á öldinni. Bent hefur verið á að það er grunsamlega "smooth" og virðist hafa verið valið mjög vandlega til að sýna það sem höfundarnir vildu. (Hér er nákvæmari útgáfa.)

Grafið sýnir kólnun á árunum eftir síðari heimsstyrjöldina og fullyrða að þar sem koldíoxíð hafi verið að aukast á sama tíma sanni það að koldíoxíð sé ekki áhrifavaldur.

Í myndinni gleymist reyndar að nefna þá tilgátu að sót frá iðnaði hafi minnkað sólargeislun til jarðar, en koldíoxíðaukningin hafi síðan náð að yfirvinna þau áhrif.

Grafið sýnir líka engin gögn eftir 1980, sem er áhugavert því ef öll gögnin eru skoðuð kemur í ljós að það er einmitt eftir 1980 sem ekki er hægt að útskýra hitastigshækkunina með sólgeislun einni saman, heldur virðist sem koldíoxíðið hafi þar meiri áhrif.

Myndin er kannski ekki bull frá upphafi til enda, en klárlega ekki eini sannleikurinn. Þannig að ekki taka allt trúanlegt sem sést í sjónvarpinu...

Báðar hliðar eru ræddar nokkuð ítarlega á Wikipedia. Hér er gagnrýnin óvægin.


< Fyrri færsla:
Vilborg í gistingu
Næsta færsla: >
Skakklappast á Fimmvörðuháls
 


Athugasemdir (7)

1.

Jón Heiðar Þorsteinsson reit 20. júní 2007:

Mér finnst ein grundvallarspurning í þessu sem myndin bendir vel á og hún er hvernig á að útskýra loftslagsbreytingar sem áttu sér stað áður en iðnvæðing hófst. Til dæmis var hlýtt á Íslandi og Evrópu á 9. öld. Sagnir herma að Vatnajökull hafi verið tveir minni jöklar og er til saga af landnámsmanni sem tók sig upp frá Bárðardal og fór með liði sínu niður í Öræfasveit (sem þá var ein búsældarlegasta sveit Ísland). Eftir ægilegar hamfarir í Öræfajökli á 14. öld eyddist sveitin og fór aftur illa út úr svipuðum hamförum á 18. öld. Síðan kólnaði svo um munaði eins og Íslendingar þekkja.

Umræðan er líka oft ruglingsleg. Ég man eftir því þegar heimsendaspár birtust í Mogganum um komandi Ísöld. Mig minnir að mynd af New York í klakaböndum og sel á ísjaka hafi fylgt með greininni. Ég var svo upptekinn að vera hræddur við kjarnorkustríð að ég held að þetta hafi ekki náð skelfa mig mikið.

Gott er auvðitað að láta náttúruna njóta vafans en það er víðáttuvitlaust að halda að viðteknar skoðanir séu alltaf réttar og hafnar yfir gagnrýni. Einu sinni héldu allir að jörðin væri flöt eða að kuldi orsaki kvef :)

2.

Már reit 21. júní 2007:

Jón Heiðar, það má bara ekki falla í þá gryfju að leggja allar "viðteknar skoðanir" að jöfnu - óháð því hvort þeim til grundvallar liggi klapptraust vísindaleg rök, eða að þær séu byggðar á tilfinningu einni saman.

Það er sorglega algengt að sjá fólk falla óvart fyrir þeirri rökvillu að af því maður hefur sjálfur engan skilning á veðurfræði eða eðlisfræði háloftanna, þá sé eðlilegt að leggja leggja rök vísindamanna í þeim greinum og leikmanna að jöfnu. Þetta er t.d. alveg sérstaklega áberandi í allri umræðu um fiskveiðimál. Vísindamenn hafrannsóknarstofnunar birta niðurstöður margra ára þrotlausra rannsókna sem sýna sterkar vísbendingar um að stofn fisktegundar X sé að veikjast, og voilá, allir fréttatímar fyllast af ómenntuðum togarajöxlum sem halda því fram að þetta sé bara bull, og "allt vaðandi í fiski".

Varðandi hitastig á Íslandi á níundu öld, þá hefur það bara ekkert með umræðuna um gróðurhúsaáhrifin að gera. Umræðan snýst um hin skýru tengsl milli koltvíildislosunar frá iðnaði og þeirrar þeirrar skörpu hitastigsuppsveiflu sem hefur átt sér stað síðustu áratugi. Þetta mikilvæga atriði kemur m.a. skýrt fram í ítarlesefninu sem Tóró bendir á hér að ofan.

3.

Már reit 21. júní 2007:

...ugh, af því það er svo auðvelt að túlka það sem ég skrifaði þannig, þá vil ég bara taka fram að ég er beini ekki efnisgrein númer 2 (þessari í miðið) að Jóni. Þetta er bara svona almenn pæling - og ég hef í gegn um tíðina staðið mig að því að falla í þessa gryfju sjálfur.

4.

Þórarinn sjálfur reit 21. júní 2007:

Að mínu viti er lykilatriði í þessari umræðu allri sú spurning hvort mannkynið sé að hafa áhrif á loftslag á jörðinni, og sé svo hvaða afleiðingar mun það hafa.

Hitastig á jörðinni hefur vissulega sveiflast mikið í gegnum tíðina án þess að maðurinn hafi komið þar nærri. Undanfarna öld hefur svo útlosun okkar á öllum fjandanum skrilljónfaldast.

Sumt virðist hafa haft áhrif til kælingar (aukið sót) og annað áhrif til hlýnunar (sér í lagi koldíoxíð). Hvorttveggja losnar einnig við "náttúruleg" ferli á borð við eldgos, en spurningin er hvaða áhrif viðbótin frá okkur hefur og sú hætta að úr verði snjóboltaáhrif.

Jörðin mun eflaust lifa af, en meiri spurning með lífsgæði okkar og afkomendanna.

Annars telst það þessari "heimildar"-mynd til tekna að hún vakti vissulega áhuga minn og ég trúði henni eins og nýju neti framan af, en svo þegar á leið fór að örla á rödd efasemdarmannsins og ég grúskaði á netinu í framhaldi.

Summa summarium; tökum ekki "heimurinn endar á morgun" spámenn allt of hátíðlega en vörum okkur þó enn frekar á þeim sem afneita rökum og snúa út úr til að sannfæra sig og aðra um að allt sé í stakasta lagi með hegðun okkar og ábyrgðarleysi gagnvart náttúrunni.

"Þetta reddast" hefur vissulega komið Íslendingum, en er ekki heppilegt viðhorf hnattrænt.

5.

Þórarinn sjálfur reit 21. júní 2007:

Ég biðst velvirðingar á prédikunarlegri notkun fyrstu persónu fleirtölu í kommentinu hér fyrir ofan ("vörum okkur" og "tökum ekki").

Það var óvart.

6.

Már reit 21. júní 2007:

Oss finnst þérunarmynd umrædds persónufornafns miklu skemmtilegri. Vér mælum með notkun hennar framvegis.

7.

Jón H reit 21. júní 2007:

- ég sagði ekki að allar viðteknar skoðanir væru vitleysa heldur að þær séu ekki alltaf réttar. Ég leyfi mér að hafa gagnrýna hugsun og hafa skoðanir á hlutum sem ég er ekki sérmenntaður í. Þannig finnst mér áhugavert að hugsa um loftslagsbreytingar þó ég sé ekki menntaður veðurfræðingur enda krefst ég ekki þess að menn séu með gráðu í stjórnmálafræði þegar ég tala við þá um pólitík

- gallinn við umræðuna um loftslagsbreytingarnar eru að hún er drifin áfram af fjölmiðlum sem þrífast á neikvæðnum fréttum. Þeir minna oft á förumunka miðalda sem hótuðu þeim sem lifðu hóglífi og höfðu gaman af lífinu helvítisvist og heimsendi. Núna eigum við að tortímast af því að við fljúgum í flugvélum eða líðum um á jepplingum (guilty as sin)

- Í fjölmiðlum er líka oft einungis horft til þess sem er að gerast núna. Jafnvel segja sumir að þar sé krónískt minnisleysi í hávegum haft. Að minnsta kosti má segja að þar sé sjaldgæft að þar sé talað um hlutina í sögulegu samhengi. Það er "dálítið" óheppilegt þegar talað er um loftslagsbreytingar af því að saga veðurfars hlýtur að segja heilmikið um hvort þróunin nú sé "afbrigðileg" eða hvort um "náttúrulega" sveiflu er um að ræða. Þess vegna skiptir máli hvernig veðrið var á 9. öld og reyndar fara menn mun aftar í tíma en það til að sjá út veðurfarsþróun og orsakir hennar

- ég sagði að náttúran ætti að njóta vafans og því er ég búinn að kolefnisjafna á mér r***, nei ég meina jepplinginn og endurvinn það sem hægt er að endurvinna

- njótið nú lífsins og verndið náttúruna :)Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry