Fimmvörðuháls að baki

Það gekk ekki sérlega greiðlega að komast af stað úr borginni á föstudagskvöldinu. Við mættum á Umferðarmiðstöðina og tróðum í okkur borgurum til að fylla á orkubirgðirnar, þaðan fór svo rútan nokkurn vegin á áætlun klukkan 19. Umferðin út úr bænum var alger geðveiki og við siluðumst fram hjá skíðaskálanum í Hveradölum klukkutíma síðar. Eftir það skánaði traffíkin aðeins og eftir Hveragerði gekk hún smurt.

Eftir pásu á Hvolsvelli héldum við áfram, en þá voru rúturnar sem fóru af stað klukkan átta komnar á hælana á okkur.

Frá Skógarfossi lögðum við á hálsinn um hálf-ellefuleytið, um 90 manna hópur að fararstjórum meðtöldum, undir heiðskírum himni.

Spáin var mjög góð fyrir suðurlandið, þótt ég hefði séð gert ráð fyrir einhverjum vindstrengjum milli jöklanna um nóttina. Ég hafði því frekar verið í því að fækka fötum í bakpokanum heldur en hitt. Það var líka prýðilega hlýtt í lofti og eftir að við vorum komin upp Kvennabrekkuna við fossinn og kroppurinn farinn að volgna gekk ég bara á ullarnærbolnum (og buxum auðvitað).

Þegar við settumst niður í fyrstu pásuna fór hins vegar að gusta og eftir nokkurra mínútna göngu var maður kominn í allar hlífðarflíkurnar enda bætti bara í.

Þessi kaldi strekkingur átti svo eftir að stríða okkur fram eftir nóttu. Á köflum var hann það hvass að maður þurfti að halla sér upp í hann til að halda jafnvæginu.

Ef maður kom úr skjóli í vindinn fékk maður á tilfinninguna að hitastigið félli um 10 gráður og þar sem lofthitinn hefur varla verið nema 2-4 gráður stóran hluta leiðar var nokkuð napurt á köflum. Fyrir vikið var maður linnulítið að renna frá og að, setjandi húfuna upp og takandi niður.

Myndavélin mín gaf upp öndina snemma göngu (sagðist vera rafmagnslaus þótt rafhlaðan væri nýhlaðin). Það er spurning hvort þetta verði hennar síðasta ferð...

Eitthvað af myndum var þó tekið á vélarnar okkar tveggja, en ég á eftir að fara yfir þær.

Skrokkurinn stóð sig

Þrekið var eiginlega betra en ég hafði þorað að vona og blessunarlega hefndi skrokkurinn ekki vanrækslunnar undanfarin misseri.

Ég var nokkuð skrefstyttri "by proxy" en venjulega og fyrir vikið hafði ég aðhald til að halda mig á jöfnum hraða.

Það var prýðilegt að fá heitt kakó og súpu á leiðinni, þótt vissulega hefði maður alveg þegið að fá örlítið lengra hlé við skálann miðja vegu - þar hefði verið indælt að komast úr skónum og skipta um sokka, en það var ekki í boði þar sem tíminn dugði ekki nema til að skella í sig tveimur súpuskömmtum.

Þegar við vorum að komast niður að snjólínu aftur lægði og við fengum prýðilegt veður á leiðinni niður og útsýnið var fínt þótt það lægi dálítið mistur yfir.

Síðustu kílómetrarnir voru hins vegar miklu drýgri en manni fannst þegar farið var að glytta í Bása. Og eftir 24 tíma á fótum og 9 tíma göngu var maður ekki alveg eins fótviss á Kattahryggjunum og við upphaf göngunnar.

Allt hafðist þetta og við skriðum í tjaldið um hálf-tíu leytið í glampandi sól. Enda var tjaldið hálfopið og ég svaf í opnum svefnpokanum.

Þegar við klöngruðumst svo á fætur seinnipartinn teygðum við úr okkur og undirbjuggum andlega fyrir hátíðarkvöldverðinn.

Þar var boðið upp á 57 grilluð lambalæri og eftir dálitlar tafir við að hefja borðhaldið (þar sem einn göngumaður fékk gat á höfuðið þegar stór tjaldsúla lét undan þyngdaraflinu) gekk lygilega greiðlega að gefa öllum að borða.

Eftir matinn var kvöldvaka þar sem harmonikkuleikarinn með svarta leðurkúrekahattinn, svörtu leðurgrifflurnar og Harley leðurjakkann, ofvirki skátahöfðinginn með gítarinn og fulla kellingin kepptu um athyglina frammi fyrir nokkur hundruð merkurgestum. Sú síðastnefnda hóf leika sem áhorfandi en sá svo ástæðu til að blanda sér í hóp skemmtikraftanna.

Því heyrðist fleygt að sýningunni lyki ekki fyrr en fulla konan dytti á bálið, en til þess kom ekki.

Ég skreið svo frekar snemma í tjaldið, dúðaður og með húfu, en unga daman hélt uppi heiðri okkar í djamminu.

Á sunnudeginum fóru rúturnar í bæinn um hádegisbilið og eftir dálitla göngu við Seljalandsfoss og sjoppustopp á Hvolsvelli skiluðum við okkur í bæinn um fimmleytið.

Á mánudeginum var ég með dálitlar harðsperrur í lærunum en að öðru leyti furðu sprækur. Alex fékk blöðrur en þær voru fljótar að hverfa og hún reyndist mun fljótari að jafna sig en ég (enda hörkutól).

Fín ferð, en ég þori ekki að lofa Laugavegsgöngu næstu helgi.


< Fyrri færsla:
Skakklappast á Fimmvörðuháls
Næsta færsla: >
Er ég Wii?
 


Athugasemdir (3)

1.

Óskar Örn reit 26. júní 2007:

Laugavegurinn er fyrir ellilífeyrisþega. Hnjúkurinn eða dauði!!

2.

Örn reit 27. júní 2007:

Ekki nema menn skokki Laugaveginn í einum rykk :)
það er enn hægt að skrá sig í Laugavegsmaraþonið 14. júlí.
Eruð þið menn eða mýs?

3.

Þórarinn sjálfur reit 27. júní 2007:

Pant vera mús í þessu samhengi.

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry