Blettað með skyri

Eftir að blokkin var máluð fyrir nokkrum árum og svalagólfin gúmmíhúðuð var nefnt að það mætti búast við því að gamall raki ætti eftir að þvinga sér leið út.

Það eru nokkrir staðir á húsinu þar sem þetta hefur gerst með áberandi hætti, og einn af þeim hefur verið svalaloftið hérna hjá okkur.

Málningin hefur bólgnað upp (niður) og flagnað og undir henni hefur glytt í hvíta duftþræði. Ég hélt helst að þetta væri kísiloxíð, en komst að því í samtali við einn af steypufræðinum Íslands að þetta myndi vera kalk (en það er önnur saga).

Á fimmtudagkvöldinu, eftir að Sigmar bróðir hafði niðurlægt mig í kubb í síðdegissólinni réðst ég til atlögu við lausu málninguna með kíttispaða og stálbursta. Varð úr því mikið subberí málningarflagna og steinryks.

Í gær kom svo að því að bletta í sárin með útimálningu meðan Alex teygði úr sér undir sænginni.

Ég komst að því að ég hef líklega ekki málað með útimálningu (a.m.k. ekki steinmálningu) árum saman, því þykktin kom mér á óvart. Þetta var eins og að juða skyri í loftið.

Ég hafði vandað mig við að breiða plast undir mitt nánasta umhverfi, en það reyndist mesti óþarfi. Eina leiðin til að fá slettur á svalagólfið hefði verið ef ég hefði hrunið niður af stólnum með fötu og pensil. Til þess kom ekki í gær og vonandi slepp ég við slíka byltu núna þegar ég legg í aðra umferðina.

Ekki veitir víst af, því þótt ég hafi reynt að pensla þykkt var málningin sem ég skóf af mun þykkri.


< Fyrri færsla:
Ártalið lesið þrisvar
Næsta færsla: >
Myndir frá Köben
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry