Eini rétti Biflíuskilningurinn?

Mér fannst ágætt það sem Emilie samverkamaður minn í lokaverkefnisskrifunum sagði þegar fjargviðrið um skopteikningarnar af Múhameð stóð sem hæst, nefnilega að þótt hún liti á sig sem trúaða hefði hún misst alla trú á trúarbrögðum.

Ég hef verið að velta vöndum yfir þessu undanfarið og einhversstaðar aftarlega í öðru heilahvelinu örlar á ítarlegri úttekt á mínum eigin skoðunum á trúarbrögðum almennt, og sér í lagi þeim trúarbrögðum sem ég þekki best. Sú úttekt bíður síns tíma, en ég get þó ljóstrað því upp að ég er að miklu leyti sammála Emilie. Að minnsta kosti setur mig hljóðan í trúarjátningunni á kirkjuathöfnum þegar kemur að því að játa trú mína á heilagri almennri kirkju, en kannski meira um það síðar.

Sannkristni á Vísi

Í morgun rakst ég á pistil eftir Steindór J. Erlingsson á Vísi: Viðheldur fáfræði kristninni?. Pistillinn sem slíkur er þó nauðaómerkilegur og fyrirsögnin hallærisleg Morfís klisja. Biblíuþýðingar og -túlkanir í gegnum tíðina hafa, eins og öll önnur trúarbrögð, einkennst af pólitík og í pólitík er valinn sá sannleikur sem hentar. Það er ekki þar með sagt að kristni einkennist af meiri fáfræði en hvað annað.

Það sem mér fannst hins vegar merkilegra voru athugasemdir notandans "Sannkristins" sem fussaði yfir guðlastinu í doktornum. Með leyfi fundarstjóra:

Auðvitað verða prestar Þjóðkirkju allra landsmanna að velja vel þá kafla sem þeir predika úr Biblíunni enda er þar allt fullt af mannasetningum og gömlum goðsögum og refsilöggjöf gyðinga til forna. Það er því mikil blessun að við höfum hina hámenntuðu presta með full réttindi sem geta leiðbeint okkur um hvernig á að lesa Biblíuna rétt.

Ef Biblían er lesin í Ljósi Krists þá er þar allt Sannleikur enda er Guð Sannleikur og því er Biblían rétt og t.d. upprisa Jesú Krists einn best skjalfesti og vottaði atburður allra tíma.

Það þykir mér skemmtileg rökfesta að til að lesa biblíuna rétt þurfi pungapróf úr guðfræði, til að sía út mannasetningarnar, en ef hún er lesin í réttu ljósi er þar allt Sannleikur.

Eitthvað er mig farið að misminna úr fermingarfræðslunni, því ég stóð í þeirri trú að upprisinn Jesú hefði ekki birst nema sárafáum vottum. En ekki hvarflar að mér að deila þar við hinn sannkristna.

Hin eina sanna sannkristni

Hugtakið sannkristinn er eitt af þessum skemmtilegu hugtökum sem menn nota aðeins um sjálfa sig eða þá sem þeim eru sammála.

Mig rámar til dæmis í ramakvein sem hinn sannkristni Gunnar á í Krossinum um það leyti sem honum tókst fyrir náð og miskunn alvaldsins að tryggja sér heilan lager af biblíum til að þurfa ekki að beina söfnuðinum á það guðlast sem var yfirvofandi í nýrri þýðingu biblíunnar. Ó vei!

Enda virðist það vera eitt einkenni sannkristninnar að sú útgáfa biblíunnar sem viðkomandi ólst upp með er hin eina sanna útlegging orða Krists, hvort sem það er tíunda eða tuttugasta afleiða frumtextanna sem skrifaðir voru áratugum eftir að umræddir atburðir áttu sér stað.

Og þar sem ég var að rifja upp þessa hneykslan Gunnars rekst ég ekki á grein um nákvæmlega þetta (eftir því sem ég best skil) á forsíðu mbl.is!

Það má margt segja um það hvernig raunveruleiki vinsældaveiða moggabloggara hefur reynst í tilrauninni um moggabloggið (og ófáar bölbænirnar sem Stefán Pálsson hefur barið saman um það fyrirbæri), en ég veit ekki um neinn sem skilur hvað Moggamenn voru að hugsa með "Netgreinunum" sem birtast neðst á forsíðunni.

Þar sýnist mér helst að sjálfskipaðir vitringar og prédikarar eigi sér fastan vettvang og greinafæðin er slík að sama snakkinu skýtur upp trekk í trekk. Ég veit ekki hvort þetta eru greinar sem úthýst hefur verið úr pappírsútgáfunni, enda les ég ekki Moggann til að hafa samanburðinn.

Sannar biblíuþýðingar á mbl.is

Í kvöld virðist þar hafa borið að landi nýja snilld: Biblían í nýrri þýðingu eftir trúboðann Konráð Rúnar Friðfinnsson.

Ég verð að viðurkenna að ég er ekki 100% viss um að ég skilji hvert trúboðinn er að fara, en stenst ekki mátið að draga fram nokkrar tilvitnanir (aftur með leyfi fundarstjóra):

Í því ljósi mætti spyrja sig að því hví menn vilji færa Biblíuna yfir á mál sem almenningur talar þegar vitað er að enginn mun lesa Biblíuna nema sá einn sem áður hefur hlotið að gjöf heilagan anda[...]

En að ætla sér að haga þýðingu á helgri bók Drottins þannig að hún verði gerð aðgengileg venjulegu fólki er ekki góð latína, ef rétt reynist.[...]

Og hvers vegna skyldu þeir sem vinna að þessu verki vera að hlusta á fólk sem stendur utan við trúna og lifir ennþá í syndum sínum? Með allri virðingu fyrir þessu blessaða fólk (sic).

Ef ég skil kjarninn í netgrein trúboðans rétt er hann sá að þegar Guðbrandur lét þýða Guðbrandsbiblíu var það þarft og frábært verk að koma henni á íslenska tungu, en núna þegar hægt er að fletta upp í frumheimildunum á vefnum er engin ástæða til þess að gera biblíuna aðgengilega, heldur á hún bara að vera fyrir þá sem eru þegar trúaðir.

Held ég...


< Fyrri færsla:
Einkenni umferðarbjána: bremsuljósin?
Næsta færsla: >
Helgi fyrir austan
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry