Helgi fyrir austan

Það er búið að standa til lengi að skreppa í helgarferð til Egilsstaða en alltaf verið eitthvað í veginum. Nú þótti okkur hins vegar mál til komið að drífa okkur svo við værum búin að taka skreppinn áður en við förum í rannsóknarleiðangur um austurland og skerið allt í byrjun ágúst.

Við flugum austur á föstudagseftirmiðdegi og lentum þar í hressilegri rigningu. Hún kom sér vel sem afsökun fyrir letikvöldi á Dalskógunum við snarkandi arineld eftir gasgrillaða meistarapissu Margrétar sys.

Á laugardeginum fórum við í rúnt um suðurfirðina, frá Eskifirði til Breiðdalsvíkur. Þar sá ég meðal annars álverið í fyrsta sinn og ók sömuleiðis í fyrsta sinn í gegnum Fáskrúðsfjarðargöngin.

Á Fáskrúðsfirði leituðum við uppi vegsummerki eftir forfeður Alexöndru og litla franska kaffihúsið sem átti að hafa fengið hrós fyrir krútt- og notalegheit. Það fannst að lokum, en þótt epla- og rabarbarapæin hafi verið ágæt var kaffihúsið sem slíkt ekki að fá sérlega mörg stig hjá okkur hjónaleysunum. Það var ekki beinlínis subbulegt, en eitthvað "cheap". Mér finnst til dæmis alltaf jafn hallærislegt á kaffihúsum ef í mann er hálfskutlað pappakassa með handfylli af tepokum að velja úr (sér í lagi ef valið stendur á milli ávaxtates og Melrose's).

Kaffihúsið Margrét fyrir ofan byggðina í Breiðdalsvík fékk hins vegar mun fleiri stig, þar fékk maður til dæmis sitt svarta te uppáhellt í litlum tekatli með kerti til að halda því heitu.

Við fengum svo grillaðan kjúkling í kvöldmat og skruppum í smá kvöldrúnt út að sumarbústað ættarinnar. Við létum það reyndar ógert að gista - tökum það í ágúst í staðinn.

Sunnudagsmorguninn var svo sólríkur og hlýr og eftir að ég hafði baksað við að endurbyggja tölvu heimilisins (sem ekki tókst fyllilega) var það verk lagt á hilluna að sinni og við fórum með gamla settinu og Mardí Fljótsdalshringinn, með viðkomu í snilldar kaffihlaðborðinu á Skriðuklaustri og göngutúr um trjásafnið í Hallormsstaðaskógi.

Prýðileg ferð og margt sem á að rannsaka betur í ágúst.


< Fyrri færsla:
Eini rétti Biflíuskilningurinn?
Næsta færsla: >
Fiskikör og alheimsfegurðardrottningar
 

Útrætt mál

Lokað er fyrir athugasemdir eftir 30 daga.

Comments are closed for this entry